Leikmannaskipti á hægri og vinstri. Í gær var seinasti dagurinn sem nota má til leikmannaskipta í NBA (trade deadline) og liðskipun margra liða breyttist. Heilir 14 leikmenn fóru í nýtt lið.

Stærstu skiptin voru þriggja liða skipti liðanna Atlanta Hawks, Detroit Pistons og Boston Celtics þar sem 7 leikmenn komu við sögu. Atlanta Hawks fengu þá Bob Sura, Zeljko Rebraca og fyrsta valdrátt í nýliðavalinu frá Pistons, auk þess sem þeir fengu Chris Mills frá Atlanta. Pistons fengu Rasheed Wallace frá Atlanta og Mike James frá Boston. Celtics fengu Chucky Atkins og Lindsey Hunter frá Pistons.

Miðað við getu þeirra leikmanna sem eru í skiptunum er augljóst að Pistons kemur best út. R. Wallace, sem spilaði aðeins 1 leik fyrir Atlanta, verður að teljast einn af betri PF í dag og Mike James verður góður varamaður fyrir Chauncey Billups og Rip Hamilton. Þeir eru án efa besta liðið í Austrinu undir körfunni núna og alveg samkeppnishæfir við sterkari lið Vesturdeildarinnar. Ég ætla meira að segja að gerast svo djarfur að spá Detroit í úrslit NBA. Ég meina, þeir hafa það góðan leikmannahóp að þeir eiga fína möguleika á því. Billups er að eiga sitt besta ár og RIP er að spila vel. Tayshaun Prince hefur verið fínn með 10 stig í leik og svo með þessi tvö skrýmsli undir körfunni, Ben og Rasheed Wallace. Síðan er bekkurinn ekkert lélegur, menn þar eins og Memeth Okur, Mike James og Corliss Williamson.

Atlanta ætla greinilega að tapa almennnilega fyrst að þeir ætla að tapa á annað borð og þeir eru líklegast með lélegasta leikmannahópinn í dag. Núna er Jason Terry eini “góði” leikmaðurinn sem er eftir í liðinu. Það er greinilegt að þeir hugsa bara til framtíðarinnar og ætla að fá góðan mann úr nýliðavalinu og svo munu þeir hafa pening fyrir stjörnuleikmanni. Mér finnst samt ólíklegt að Kobe fari til þeirra, finnst ólíklegt að hann muni vilja fara til þeirra.

Boston fóru nett í þetta og styrkja veikustu stöðu sína, eða ásinn og fá tvo sæmilega PG en láta frá sér Mike James, einnig sæmilegur PG og Chris Mills sem hefur ekkert spilað í vetur. Boston hefur gengið mjög illa að undanförnu, unnið aðeins 1 af seinustu 11 leikjum sínum. Ég er ekki viss um að þetta styrki liðið mikið en PG staðan hefur verið MJÖG veik í ár og núna er alla vega meiri breidd þar.


Orlando Magic og Utah Jazz skiptu einnig á leikmönnum, Magic fékk DeShawn Stevenson og Gordan Giricek fór til Utah. Giricek og Stevenson eru álíka góðir leikmenn en samt mjög ólíkir. Ég held að þetta hafi verið sniðug skipti þar sem leikmennirnir passa báðir mun betur inn í leikstíl nýju liðanna sinna. Utah spilar hálfgerðann evrópubolta, sterk liðsheild og sendingabolti, og Giricek kom frá Króatíu og einhvern veginn finnst mér mjög líklegt að hann muni passa vel inn í hið hvíta byrjunarlið Utah.
DeShawn hins vegar, er mikill íþróttamaður, sterkur, snöggur og með góðan stökkkraft. Orlando er náttúrulega eins manns lið, T-Mac á það alveg, en DeShawn verður örugglega fínn aukaleikari þar.

Williams er ekki eini nýji leikmaðurinn í Utah, þeir fengu einnig Tom Gugliotta frá Phoenix, sem fékk þá Keon Clark og Ben Handlogten. Einnig fékk Utah tvo fyrstu umferðar valdrætti og einn valdrátt í seinni umferð í nýliðavalinu árið 2005.
Ferill Gugliotta er búinn, hann átti nokkur góð ár hjá Minnesota en síðan hann fór til Phoenix hefur leiðin aðeins legið niður á við. Hann mun ekki breyta neinu hjá Utah.
Keon Clark og Ben Handlogten eru báðir meiddir og ómögulegt að segja hvort þeir breyti einhverju hjá Phoenix, en Clark átti gott tímabil 01-02. Hann er búinn að vera meiddur í allt ár og maður veit ekkert hvernig hann verður þegar hann kemur aftur.

Seinustu skiptin voru á milli NO Hornets og Orlando Magic. Magic fékk centerinn Sean Rooks en Hornets Shammond Williams. Hvorugur þeirra mun breyta miklu, báðir frekar lélegir leikmenn. Rooks mun auðvitað bæta hæðina í lágu liði Magic en ekkert meira.