Úrslitaleikurinn í Hópbílabikarnum var spilaður í dag og voru það Keflavík og Njarðvík sem spiluðu. Leikurinn var hörkuspennandi, Njarðvík unnu leikinn eftir ótrúlegan 4. leikhluta sem þeir unnu 31-9 eftir að Keflavík hafði verið betra liðið fyrstu þrjá leikhlutana.
Leikurinn var sýndur beint á RÚV og ég skrifaði þessa grein á meðan ég horfði á leikinn þannig að það gæti verið einhverjar tölfræðivillur.

Njarðvík byrjaði leikinn af krafti og komust í 10-0 og fyrsta karfa Keflavíkur kom ekki fyrr en eftir 3 og hálfa mínútu, þristur frá Gunnari Einarssyni. Þá snérist leikurinn við og Kef. breytti stöðunni í 11-11. Síðan var nokkuð jafnræði með liðunum en þegar 1 mín. var eftir kom Magnús Gunnars inn á og setti 8 seinustu stigin, staðan eftir 1. fjórðung: Kef. 29 - Nja. 19.

2. Leikhluti var nokkuð skrýtinn. Fyrstu fimm mínúturnar var mjög mikið um mistök og Njarðvík var aðeins búið að skora 2 stig. Seinni 5 mínúturnar gekk liðunum hins vegar miklu betur. Þau skiptust á að skora, leikurinn var hraður og falleg tilþrif, Egill Jónasson tróð tvisvar og Derrick Allen tróð með tilþrifum. Njarðvík, sem voru á tímabili 19 stigum undir náðu að minnka muninn undir lok hálfleiksins í 14 stig. Staðan eftir hálfleikinn: Nja 35 - Kef 49. Bestur hjá Keflavík í fyrri hálfleik var Gunnar E. með 12 stig. Hjá Njarðvík voru þeir Brandon Woudstra og Friðrik Stefánsson, báðir með 9 stig.

3. Leikhluti var spilaður vel af báðum liðum. Munurinn var ávallt í kringum 10-15 stig, Derrick Allen sá til þess að hann varð ekki minni. Hann spilaði frábærlega í fjórðunginum, jafnt í vörn sem sókn. Hann lokaði teignum alveg og í sókn skoraði hann 14 stig. Hjá Njarðvík voru Woudstra og Egill góðir, Woudstra skoraði 8 stig og Egill tróð einu sinni og varði nokkur skot. Staðan eftir 3. leikhluta: Nja 59 - Kef 74.

Njarðvík byrjaði 4. leikhluta af krafti, sérstaklega Guðmundur Jónsson, og minnkaði muninn í 6 stig og þá, í stöðunni 70-76, fékk Allen sína 5. villu, en hann hafði verið besti leikmaður Keflavíkur það sem búið var af leiknum. Njarðvík tvíefldust við þetta og þegar 4 mín. eru eftir kemur Páll Kristinsson þeim yfir í stöðuna 79-78, í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta. Keflavík skorar síðan en Nja. skorar á móti. Síðan komast Kef. í 83-81 en Woudstra jafnar og þegar hálf mínúta er eftir stela Nja. boltanum og Guðmundur kemur þeim í 85-83. Keflavík taka leikhlé og Gunnar??? tekur 3ja stiga skot en Brenton Biirmingham ver það, gefur fram á Guðmund og hann skorar, staðan 87-83. Keflavík bruna fram, taka þrist en klúðra, Friðrik S. tekur frákastið, það er brotið á honum auk þess að einhver í Keflavík fær tæknivillu og hann fær þrjú víti. Hann setur öll niður og Njarðvík sigrar, 90-83.

Maður leiksins að mínu mati var Guðmundur Jónsson sem átti hreint frábæran 4. leikhluta, skoraði fullt og eiginlega tryggði þeim sigurinn með þessum tveim seinustu körfum sínum. Aðrir sem áttu góðan leik voru Brandon Woudstra, Friðrik Stefánsson og Egill Jónasson hjá Njarðvík. Woudstra var fínn,skoraði góðar körfur og stal nokkrum boltum. Friðrik átti stöðugan leik, skoraði 18 stig held ég og var sterkur í fráköstunum. Egill átti mjög góðan fyrri hálfleik, jafnt í vörn og sókn, en sást svo varla í seinni hálfleik.
Hjá Keflavík var Allen góður en var eins og áður var sagt rekinn út af þegar 5 mín voru eftir. Nick Bradford var líka fínn en hefði líklegast samt getað gert meira. Gunnar Einarsson var samt bestur hjá Keflavík. Hann skoraði 19?? stig, tók slatta af fráköstum og var góður mest allan leikinn.

Það var mjög gaman að sjá leikinn á RÚV, best að hrósa þeim fyrir þau skipti sem að körfubolti er sýndur hjá þeim, þó að þau skipti séu ekki mörg. Það var líka gaman að hlusta á lýsingu Samúels Arnar, því að þó að hann sé ekki með mikinn leikskilning, þá er hann svo fullur af áhuga um körfu að það kemur mjög skemmtilega út. Síðan var Pétur Guðmunds með honum og er náttúrulega yfirfullur af fróðleik um íþróttina þannig að þeir pössuðu bara mjög vel saman.