Ég ætla að líta aðeins á heitustu og köldustu liðin í NBA í dag. Ég ætla að byrja á Villta Vestrinu. Austrið kemur aðeins seinna í vikunni.

Í Vestrinu er senn að koma að uppgjöri hjá meisturum Lakers, næstu 2 leikir verða erfiðir útileikir, fyrst á móti New Orleans og síðan gegn Yao Ming og félögum í Houston á föstudaginn. Shaq hefur verið gagnrýndur fyrir að herma eftir hreiminum hjá Yao Ming. Shaq meinti það nú bara í gríni, sem misheppnaðist algjörlega. Yao Ming er að verða þvílíkt vinsæll, einhvern veginn á kostnað Shaqs og þessi brandari hjá Shaq lagar ekki neitt. Lakers eiga meðal annars eftir leiki gegn New Jersey (!) og LA Clippers á heimavelli og mjög erfiða leiki á útivelli gegn Sacramento (!) og Phoenix í lok janúar.
Lakers hafa verið í stuði og unnið 6 af síðustu 7 leikjum en vandamálið þeirra er að þeir hafa aðeins unnið 2 af síðustu 8 útileikjum. Þegar að Lakers spilar á heimavelli þá komast þeir nánast alltaf vel yfir 100 stig og halda andstæðingunum vel undir 100 stigum. Á útivelli snýst dæmið alveg við og Lakers komast varla yfir 90 stig. Í þeim 37 leikjum sem búnir eru hafa Shaq og Bryant leidd Lakers í stigaskorun alltaf, þar af Bryant 25 sinnum.

Sacramento hafa unnið 7 af síðustu 9 leikjum sínum og öfugt við Lakers þá eru þeir jafn öflugir heima og að heiman. Sacramento hafa unnið 7 af síðustu 10 útileikjum sínum. Í liði Sacramento hafa þeir alltaf 5 leikmenn öfugt við Lakers inn á sem geta skorað, spilað vörn, tekið fráköst og gefið stoðsendingar. Síðan á bekknum hafa þeir aðra 7 leikmenn sem geta gert þessa hluti næstum eins vel og þeir 5 sem byrja inn á. Sacramento er með jafnbesta liðið í deildinni í dag og ef að 12 myndu byrja inn á í NBA þá ætti Sacramento sigurinn vísan. Í kvöld spilar Sacramento gegn stórliði Dallas. Það verður örugglega frábær leikur og mikið vildi ég að sá leikur yrði Sýn-dur.

LA Clippers eru í vandræðum, aðeins unnið 2 af síðustu 9 leikjum sínum. Þeir hafa nokkra góða leikmenn og eru til dæmis með 6 leikmenn með yfir 10 stig að meðaltali í leik auk þess sem Quentin Richardson er með 9.5 stig í leik. Elton Brand er að mínu mati einn besti framherjinn í dag og getur gert flest, frábær varnarmaður og ágætur sóknarmaður, en þyrfti að skora miklu meira í dag til að Clippers ættu möguleika á sæti í playoffs. Lamar Odom og Elton Brand eru báðir með rúm 19 stig í leik. Lamar Odom hefur reyndar lítið leikið vegna meiðsla en hefur byrjað vel, en síðan hann kom aftur hefur Clippers aðeins unnið 2 af 8 leikjum. Andre Miller er annars aðalmaðurinn en kannski treysta þeir um of á Miller. Clippers hafa ungt lið og ef þeir ná að halda Andre Miller, Lamar Odom, Corey Maggete, Quentin Richardson, Erik Piatkowski, Elton Brand og Olowakondi áfram í liðinu og fái góðan nýliða þá spái ég þeim góðu gengi eftir 1 eða 2 ár. Allir þessir leikmenn eru á þessum þröskuldi að verða stórgóðir, þessi sami þröskuldur sem að Tracy McGrady og Kobe Bryant yfirstigu þegar þeir voru búin að vera í nokkur ár í deildinni. Annars lítur ekki út fyrir að bestu leikmenn Clippers verði áfram hjá þeim, því miður fyrir þá.

Phoenix hafa komið á óvart en samt ekki. Þeir eru með leikmenn sem kunna sko að spila, eins og Marbury, Penny Hardaway og Shawn Marion. Þá vantaði fyrir tímabilið PF og center en Amare Stoudamire var ekki sammála því og hefur staðið sig mjög vel, að minnsta kosti segir Stephen Marbury að Stoudamire sé eins og Jordan þegar hann var upp á sínu besta og líkir síðan Kevin Garnett við Mario Elie þegar að Elie var uhhh….upp á sínu “besta”. Þeirra vandamál eru slakir varamenn og enginn Center, til dæmis er Scott Williams núna að byrja inn á hjá þeim. Penny Hardaway er síðan ekki eins góður eins og hann ætti að vera miðað við hæfileikanna sem hann býr yfir.

Dallas eru með frábært lið. Hafa unnið síðustu 6 leiki, alla nánast léttilega. Aðeins tapað 2 af síðustu 14 leikjum og síðan hafa unnið 6 af síðustu 8 útileikjum. Þeir hafa langbesta árangurinn á útivelli og þann besta á heimavelli ef undan er talið Indiana Pacers. Árangur Dallas er 31-5 er frábær og með áframhaldandi árangri þá verða þeir með svipaðan árangur í vor og Bulls liðið frábæra 95-96. Dirk Nowitski er ásamt Tim Duncan og Kevin Garnett langbestu framherjarnir í NBA að mínu mati. Michael Finley og Steve Nash eru báðir þrusugóðir. Þrátt fyrir þennan góða árangur er Rae Lafrentz ekki að standa sig og Don Nelson virðist vera að missa þolinmæðina og er Lafrentz búinn að missa byrjunarsætið til Shawn Bradley. Don Nelson er reyndar frægur fyrir að spila körfubolta sem byggist á engum Center svo að hann vill helst hafa Shawn Bradley inn á til að spila vörn og síðan bíður Shawn Bradley bara þegar Dallas fer í sókn. Shawn Bradley er reyndar að eiga stórgott tímabil og á pínuþátt í þessum góða árangri hjá Dallas.

San Antonio, eða Tim Duncan eins og liðið gæti allt eins verið kallað, hafa verið á fínu skriði og unnið 5 af síðustu 6 leikjum á nýju ári. Duncan er búinn að leiða liðið í fráköstum í 20 leiki í röð og hefur auk þess leitt liðið í 5 síðustu leikjum í stoðsendingum. Að sjálfsögðu er hann nánast alltaf stigahæstur en stutti Frakkinn Tony Parker og Stephen Jackson hafa gert sitt til að koma í veg fyrir það. Eitt er þó víst að Tim Duncan er stórkostlegur leikmaður og um það verður ekki deilt. Hvort að San Antonio halda þetta út verður ósagt hér en San Antonio er í 3. sæti í öllu Vestrinu. Hungrið í David Robinson er lítið í sínu síðasta tímabilið og getur hann hætt að spila körfubolta án þess að fá fráhvarfseinkenni.

Houston eru fínir. Gríðarlega ungt lið þar sem flestir eru aðeins yfir tvítugt og til dæmis er Eddie Griffin jafngamall og ég, fæddur 1982. Glen Rice eyðileggur þetta hinsvegar fyrir þeim með því að vera hundgamall. Houston hafa unnið 6 af síðustu 8 leikjum sínum. Houston er í 6-7. sæti og munurinn á 6. eða 7. sætinu í playoffs er munurinn á Sacramento og San Antonio/Phoenix/Portland. Þannig að það er til mikils að vinna fyrir Houston. Hver vill mæta Sacramento?? Houston hefur núna ekki komist í playoffs í nokkur ár eða síðan að Hakeem Olajuwon var á lífi. Hakeem er núna byrjaður að ganga aftur sem risastór Kínverji sem getur hitt af löngu færi.

Utah er um það bil andstæðan við Houston. Þeir eru eldgamlir þeir John Stockton og Karl Malone, en það skrýtna er að núna eru aðrir í Utah að standa sig stórvel. Matt Harpring er búinn að skora 27.5 stig að meðaltali í 2 síðustu leikjum, samanlagt með 18.2 að meðaltali og verður stigahærri en Karl Malone, 19.2, með þessu áframhaldi og það hefur ekki gerst síðan fyrir stríð að Karl Malone hafi ekki verið stigahæstur hjá Utah. Rússinn Andrei Kirilenko hefur staðið sig vel, getur blokkað skot, stolið boltum, hitt af löngu færi og er þessi týpiski fjölhæfi evrópuleikmaður í NBA sem er að gera það gott. Meira að segja Calbert Cheaney hefur staðið sig í síðustu leikjum og er hann örugglega jafn hissa á því eins og ég. Síðustu 4 ár hjá þessum kappa, sem var einn sá besti í háskóla í nokkur ár, hafa verið sorglega slök meðal annars vegna meiðsla. Mark Jackson er að hvíla John Stockton og er það jákvætt enda hefur Stockton verið talinn of gamall síðustu 10 ár. Utah eru annars nokkuð volgir, hafa unnið 9 af síðustu 12 leikjum sínum og eru þeir í baráttunni við Houston um að sleppa við að mæta Sacramento. Karl Malone og John Stockton vilja örugglega frekar hætta að spila körfubolta heldur en að mæta Sacramento.

Minnesota hafa verið mjög stöðugir, taka sjaldan neinar rispur, en hafa staðið sig þokkalega það sem af er. Þeirra vandamál er að Kevin Garnett þarf nánast að spila allar 5 stöðurnar á vellinum. Þeir eru að berjast um að halda 8. sætinu og með heppni og þessum stöðugleika ættu þeir að ná því nema að Lakers fari að spila eins og meistarar. Meiðsli lykimanna, Terrell Brandon og Wally Szczerbiak, hefur haft áhrif en gamlir leikmenn eins og Rod Strickland og Kendall Gill hafa í staðinn þurft að sýna hvað þeir geta. Centerinn þeirra hann Radoslav Nesterovic hefur verið að standa sig þokkalega og er með rúm 11 stig í leik en er búinn að fá rúmar 4 villur að meðaltali í leik sem er ekki gott.

Denver eru kaldir núna, en eftir aðeins 1 sigur af 14 í síðasta mánuð hafa þeir á þessu ári unnið 3 af 6. Þeir eru samt ennþá lélegir og ættu bara að reyna að fá góðan draftpick.