Leikslok: Tottenham 1 - 1 Liverpool Nú er fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar lokið og endaði hann með jafntefli. Bæði liðin eru komin með nýja þjálfara, Liverpool með Rafael Benitez og Tottenham með Jacques Santini.

Liverpool voru sterkari í fyrri hálfleik og var Cissé mest áberandi í sókninni. Á endanum skilaði það sér og skoraði hann á 38. mínútu af stuttu færi og er hann nú markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar, ásamt Jermain Defoe, en hann jafnaði leikinn á 71. mínútu eftir jafnari seinni hálfleik. Eftir seinna markið var leikurinn frekar daufur og 1-1 varð lokaniðurstaðan.

Á heildina litið spiluðu Liverpool betur, skutu oftar á mark og voru meira með boltann. Þeir virðast ekki sakna Owen neitt svakalega og ég hef trú á að Cissé nái að fylla upp í skarð hans. Baros sást hinsvegar varla í leiknum og eru það ákveðin vonbrigði. Spurning hvort hann sé ekki maður fyrir ensku knattspyrnuna? Hyypia, Riise, Kewell, Josemi og auðvitað Gerrard voru góðir í þessum leik að mínu mati.

Dómarinn stóð sig líka vel, dæmdi lítið og hafði ágætis tök á leiknum. Hann dæmdi hins vegar ekki víti sem Liverpool áttu að fá þegar varnarmaður reif í peysuna á Steven Gerrard þegar Gerrard var búinn að sóla hann. Svo er spurning hvort boltinn hafi farið í hendina á Defoe áður en hann skoraði.


Tottenham - Liverpool

Mörk
Defoe, J (71) - Cisse, D (38)

Skot á mark
7 - 8

Horn
3 - 8

Brot
22 - 13

Gult
(Kanoute, Redknapp, Defoe) 3 - 1 (Pongolle)

Rangstöður
5 - 1


Hvað útsendinguna á skjáeinum varðar er ég nokkuð sáttur bara, myndgæðin voru mjög góð og hljóðið ágætt, það var að vísu smá suð í hljóðrásinni og pirraði það mig örlítið nokkrum sinnum.

Hvað þulina varðar fannst mér aðalþulurinn standa sig mjög vel, sagði frá mörgu sem maður vissi ekki, sem dæmi má nefna vissi hann að Houllier var þarna á vegum franskrar sjónvarpsstöðvar :) Hins vegar fannst mér aukaþulurinn ömurlegur! Hann kom ekki með neitt gáfulegt, talaði hægt með pásum í miðjum setningum, blés “úFFFF” í míkrafóninn í annarri hverri tæklingu og hló allt of mikið af nettum fimmaurabröndum aðalþulsins. Ég hlakka til að heyra ensku þulina, vona að þeir verði góðir.

Hvað fannst ykkur? Segið ykkar skoðun!