Staðan er jöfn, 2:2, eftir venjulegan leiktíma í úrslitaleik FH og Fylkis í deildabikarkeppni karla í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Egilshöll. Leikurinn, sem hefur verið bráðfjörugur og lofar góðu fyrir sumarið, er því framlengdur.
Björn Viðar Ásbjörnsson kom Fylki yfir strax á 2. mínútu en Jón Þorgrímur Stefánsson jafnaði fyrir FH á 10. mínútu. FH náði forystunni þegar Jónas Grani Garðarsson skoraði á 20. mínútu en á 58. mínútu jafnaði Finnur Kolbeinsson fyrir Fylki. Mikið fjör var í leiknum eftir það og á lokakaflanum voru bæði lið nálægt því að skora. Jakob Hallgeirsson skaut í þverslána á marki FH og rétt á eftir skaut Ásgeir G. Ásgeirsson í stöngina á marki Fylkis.

Góð aðsókn er á leikinn í Egilshöllinni því þar eru um 1.200 áhorfendur að fylgjast með þessum úrslitaleik.

gras.is