Ric George tók í vikunni viðtal við Phil Thompson en eins og menn muna var hann vanur að spyrja Houllier í þaula í hverri viku um gengi liðsins. En nú er Phil við stjórnvölinn.

Phil, hversu mikilvægt var það að tapa ekki fyrir Arsenal á sunnudaginn ?

Þetta voru sennilega mikilvægustu úrslitin á tímabilinu. Leikurinn gegn Southampton var lélegur ef tekið er tillit til úrslita og frammistöðu liðsins í þeim leik. Til þess að liðið geti sýnt góða frammistöðu erum við háðir því að flestir leikmannanna spili vel. Því náðum við ekki gegn Southampton. Við þurftum að bæta frammistöðuna mikið gegn Arsenal og held ég að okkur hafi tekist það. Sálrænt var þetta stig mikils virði, ekki bara vegna þess hvað það gerði fyrir liðið heldur einnig fyrir einstaklingana í liðinu. Að ná að vinna upp mark Arsenal segir mikið um leikmennina. Ég hafði haft áhyggjur af því að sjálfsöryggið mundi skaðast ef við lentum marki undir í leiknum en leikmennirnir sýndu mikinn karakter. Úrslitin voru fyllilega sanngjörn.

Heldur þú að svona úrslit geti komið liðinu á rétta braut á ný ?

Það er erfitt að segja til um hvort þetta hafi þau áhrif, en þetta hefur örugglega gefið strákunum aukið sjálfstraust. Það voru allavega engin fagnaðarlæti í búningsklefanum eftir leikinn þótt þeir hefðu náð jafntefli við Arsenal. Þetta eru miklir atvinnumenn og vita að eitt stig gegn Arsenal er mikilvægt fyrir komandi leiki.

Heldur þú enn að það lið sem endar fyrir ofan Manchester United verði meistari ?

Ég trúi því staðfastlega. Það var rætt um Manchester United af mikilli vanvirðingu af öðrum framkvæmdastjórum og þjálfurum þegar Manchester United gekk í gegnum erfiðleikatímabilið í haust. En allir ættu að vita að með þessum hæfileikum sem búa í því liði að þeir valta yfir andstæðingana ef þeir komast á skrið. Þeir enda á toppnum eða alveg við hann.

Áttir þú von á því að Manchester United kæmi svona sterkt tilbaka eins og raun bar vitni ?

Það sem þeir hafa gert er einstakt, en kemur mér ekki á óvart miðað við gæði liðsins. Fyrstu stigin komu með erfiðismunum. Svo fundu þeir taktinn aftur og þegar þú nærð honum þá kemstu upp með ýmislegt. Markvörðurinn fer að verja erfið skot, fyrirgjafirnar fara að heppnast og varnarmennirnir verja á línu. Svona hlutir fara að ganga upp, en það þarf að vinna fyrir því. Við höfum einnig verið í þessari aðstöðu.

Getur Liverpool lært eitthvað af velgengni Manchester United ?

Já. Við vitum hvað leikmennirnir og liðið okkar getur. Þannig að við vitum að við getum vel gert það sem Manchester United hefur verið að gera undanfarið. Þetta gerðum við undir lok s.l. tímabils þegar við unnum 9 af síðustu 10 leikjum mótsins. Það sýnir getu liðsins.

Hvernig skýrir þú fallandi gengi Liverpool ?

Fyrst og fremst með undarlegum úrslitum. Ósanngjörn úrslit. Ég held að leikirnir gegn Fulham, Arsenal og Chelsea hafi verið þannig. Við áttum að vinna Fulham. Við áttum góða möguleika á að vinna þann leik án nokkurrar pressu, og það leit ekkert út fyrir að við mundum tapa þeim leik. Tapið gegn Chelsea var sjokk vegna þess að við höfðum spilað svo vel ! Markmaður þeirra átti góðan dag og varði allt sem að marki kom. Hann var valinn maður leiksins fyrir frammistöðuna. Við brenndum af víti og hann varði í horn frá Biscan, sem dómarinn reyndar dæmdi sem markspyrnu. Til að vera sanngjarn gangvart dómaranum þá baðst hann afsökunar tveim vikum seinna og viðurkenndi að hafa ranglega dæmt í því tilviki. En það var einmitt frá þeirri markspyrnu sem Chelsea náði einu af sínum 4 mörkum. Þessi litlu atvik gerast. Við töpuðum leiknum 4-0 sem getur hafa haft áhrif á sjálfstraust okkar. Gegn Arsenal á Anfield þegar Arsenal var einum færri, áttum við að vinna. Við yfirspiluðum þá gersamlega í því að halda boltanum, en eins og allir vita þá er það enginn trygging fyrir því að vinna leikinn ! Þessir þrír leikir hafa sennilega dregið úr sjálfstraustinu hjá okkur.

Hefur þú áhyggjur af því að næst markahæsti maðurinn í liðinu er varnarmaðurinn John Arne Riise ?

Ég held að við höfum ekki skorað eins mikið frá miðjunni eins og við hefðum kosið. Á síðasta tímabili skoruðu Gerrard og Murphy 10 mörk hvor, held ég. Gegn Southampton átti Murphy tvær ágætar tilraunir sem venjulega hefðu lent í netinu. Ef þú manst eftir markinu sem hann skoraði gegn Charlton undir lok s.l. leiktíðar, þá skaut hann með vinstri fæti, sem er ekki hans betri skotfótur, í nærhornið. Svona lagað gerist. En ég er sannfærður um að miðjumennirnir eiga eftir að skora sinn skammt að mörkum á tímabilinu.

Hvernig sýnist þér Nicolas Anelka aðlagast ?

Honum gengur bara vel að aðlagast. Allir eru ánægðir með viðmót hans, bæði á æfingum og utan vallar með hinum úr liðinu. Enginn hefur ástæðu til að kvarta hið minnsta yfir Nico. Hann var örlítið stirður þegar hann kom vegna þess að hann hafði einungis spilað einn leik af sex fyrir PSG. Það mun taka smá tíma að lagast en við sjáum framför í hverjum leik sem hann spilar. Ég mundi vilja segja að Anelka gengur bara vel, en við höfum enn ekki séð það besta til hans ennþá.

Þú átt að spila gegn Southampton á laugardaginn. Finnst þér að þú eigir eiithvað inni hjá þeim, eða þá að þú skuldir stuðningsmönnunum eitthvað ?

Ég held að við gerum það vegna þess að við stóðum okkur ekki vel síðast gegn þeim í Southampton. Margir stuðningsmannna fóru langan veg til að sjá okkur spila í miðri viku og fengu ekki að sjá liðið sitt spila vel. Það er mikilvægt að leikmennirnir skilji að þeir geti bætt fyrir þetta svona fljótt .

Hversu mikilvægt er það stuðningsmennirnir styðji við bakið á liðinu núna á þessum erfiðu tímum ?

Afar mikilvægt. Ég skora á stuðningsmennina til að flykkjast bak okkur eftir alla þá gagnrýni sem við höfum fengið upp á síðkastið. Við höfum ekki eingöngu verið gagnrýndir núna þegar okkur gengur ekkert of vel, heldur einnig þegar við vorum á toppnum. Hvers vegna lítur út fyrir það að Liverpool FC virðist ekki geta gert neitt rétt í augum fjölmiðla ? Stundum finnst mér það ógeðfellt þegar við fáum ekki þá gagnrýni sem við eigum skilið. Ef það er ein góð ástæða fyrir því að stuðningsmenn eiga að standa saman er það þegar verið er að ráðast á Liverpool FC. Þetta er klúbburinn sem stuðningsmennirnir elska. Leikmennirnir eru ekki hér ævilangt en klúbburinn er hér alla tíð. Stuðningsmennirnir ættu að hafa það hugfast að við erum gagnrýndir fyrir að spila eins og við gerum, hvernig við vinnum leiki og hvernig við töpum leikjum. Það virðist vera mikilvægast að slá til Liverpool s.l 18 mánuði, jafnvel á tímabili þegar við unnum 3 titla ! Fólk sýnir klúbbnum mikla vanvirðingu yfirleitt. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að okkur gengur illa í augnablikinu. Við komumst í aðra umferð í CL og við komumst á topp deildarinnar og samt var verið að hamast á okkur í fjölmiðlum. Ég skora á stuðningsmennina til að standa með okkur. Þeir vita að við erum gott lið, þeir vita að við komumst á skrið aftur fljótlega og þeir vita að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast á topp deildarinnar aftur.

Þrátt fyrir slæmt gengi eruð þið aðeins 3 stig frá toppnum. Í ágúst, hefðir þú þá ekki verið sáttur við þá stöðu mála á þessum tímapunkti ?

Á sama tíma í fyrra vorum við 12 stigum á eftir Manchester United. Vonandi er þessi slæmi kafli búinn hjá okkur en við vitum að við verðum að vinna vel fyrir betri árangri. Það gerist ekkert sjálfkrafa. Við erum ennþá í mjög góðri stöðu. Kannski erum við fórnarlömb eigin velgengni í upphafi tímabilsins þegar við unnum átta eða níu leiki og komumst á toppinn og höfðum gott forskot. Ef þú blandar saman góða tímabilinu og því slæma er ekki hægt að segja annað en að okkur gangi bara vel. En vegna þess að við áttum topp og núna gengur allt niðrá við þá er fólk að reyna að skilgreina vandann.

Það hefur verið rætt að endurkoma Gerard Houllier hafi seinkað af heilsufarsástæðum og dagleg samskipti ykkar geri hvorugum ykkar gott. Hvað finnst þér um svona vangaveltur ?

Þetta er út í hött. Fólk segist hafa sambönd í París við fólk sem þekkir Gerard og að þeir þekki lækna hans. Gerard Houllier hefur ekki leitað til læknis í París. Hann hefur ekki ráðfært sig við franskan lækni. Á sama degi og fréttin kom út var Gerard að ræða við mig í síma um liðskipanina og vera eins mikið inn í hlutunum og hann frekast getur verið, 3-5 símtöl á dag . Ekkert vandamál, Gerard er að braggast, hann styrkist með hverjum degi og það hvetur hann til dáða að vera með á nótunum um liðið.

Og þér finnst þetta ekki vera hindrun ?

Alls ekki ! Ég fagna afskiptum hans. Umfang vitneskju hans er ótrúleg. Ég kann vel að meta öll samtöl sem ég á við Gerard og hef gert síðan hann var þess megnugur að ræða við mig í síma eftir aðgerðina. Fyrst í stað fékk hann upplýsingar í skömmtum þegar mér fannst að hann þyrfti að vita eitthvað. Núna ræðum við alla hluti um þjálfunina, hvernig liðið á að vera og hvernig við ættum að ferðast á útileikina. Gerard skiptir sér af mörgum atriðum, og ef fólk heldur að það skaði hann þá þekkir það ekki Gerard Houllier. Ef fólk vill hafa eftir heimildamönnum ættu þeir að nefna þá. Ástæða þess að engin nöfn eru nefnd er að það eru engin nöfn. En þetta er bara enn eitt dæmið um hvað sumt fólk vill eyðileggja fyrir þessum klúbbi. Eina stundina segja fjölmiðlar að Gerard komi fyrr en áætlað er en þá næstu segja þeir að hann komi seinna vegna þess að honum hafi farið aftur í bata. Stuttu síðar segja þeir að starfi hans hafi verið breytt. Þessar sögur eru bara kjaftæði. Gerard mun koma aftur en einungis þegar hann sjálfur er tilbúinn til þess. Við munum halda áfram á sömu braut þar til það gerist.


Tekið af Liverpool.is