Phil Thompson telur það enga áhættu sem menn séu að taka með því að fá Nicolas Anelka til liðsins. Þvert á móti telur hann þetta eitt af snilldarbrögðum Gérard Houllier.

“Í augum flestra annarra þá var þetta mikil áhætta sem við vorum að taka. En hann hefur verið frábær eftir að hann kom. Á æfingum er hann virkilega góður og er að ná upp sínu rétta formi og sést það best á leik hans með liðinu. Hann á eftir að reynast frábær fyrir okkur, ég hef engar efasemdir um það.”

Thompson var einnig ánægður með Milan Baros og hvernig hann hefur aðlagast eftir að hann kom frá Banik Ostrava. Hann hafði þetta að segja um þann pilt: “Milan hefur staðið sig mjög vel. Eftir að varaliðsleiknum var frestað, þá skipulögðum við æfingaleik á Melwood. Þar lék hann mjög vel og skoraði mark.”