09.01.02. Jimmy Floyd Hasselbaink tryggði í kvöld Chelsea 2-1 sigur á Tottenham í fyrri undanúrslitaleik Worthington bikarsins á Stamford Bridge. Fyrri hálfleikur var nú með því slakara sem ég hef séð Chelsea spila í langan tíma en þeir náðu nú samt forystunni strax í upphafi þegar að Eiður splundraði vörn Tottenham með glæsisendingu innfyrir á Jimmy Floyd sem klikkaði ekki og 1-0. Fimm manna miðja Tottenham hafði síðan meira og minna undirtökin gegn fjögurra manna miðju Chelsea sem leit einkennilega út með sóknarmann (Zola) á vinstri kanti, Dalla Bona á þeim hægri og æfingalausan Jody Morris ásamt Lampard inná miðjunni. Þrátt fyrir þetta sköpuðu gestirnir sér ekkert dauðafæri en voru nokkrum sinnum hættulegir eftir að hafa komist innfyrir bakverðina. Chelsea áttu eitt gott skot að marki þegar að Keller varði mjög vel aukaspyrnu frá Jimmy Floyd. Ranieri skipti yfir í 3-5-2 í hálfleik og setti Ferrer inn fyrir Morris og Dalla Bona á miðjuna með Lampard og Chelsea byrjuðu af miklum krafti og allt annað að sjá til liðsins en illa gekk að skapa afgerandi færi og smá saman komust gestirnir aftur inní leikinn og viðvörunarbjöllunar glumdu eftir rúman klukkutímaleik þegar að Ferdinand slapp innfyrir en Carlo Cudicini varði glæsilega af tánum á honum en aðeins andartaki síðar fékk Ferdinand annað tækifæri, eftir að Sherwood hafði komist inní slaka sendingu frá Terry og rennt innfyrir vörnina, og í þetta skiptið brást honum ekki bogalistin og 1-1. Chelsea settu nú aftur í gír og fimmtán mínútum fyrir leikslok fékk liðið aukaspyrnu 30m frá marki og Jimmy Floyd dúndraði tuðrunni efst í markhornið hjá Keller, stórglæsilegt mark og staðan 2-1. Mikið gekk á síðustu mínúturnar, brotið var illa á Jimmy Floyd þegar hann var að sleppa í gegn en slakur dómarinn dæmdi ekkert, Jimmy hins vegar haltraði um á annar löpp það sem eftir var og var algjör farþegi. Sjö mínútum fyrir leikslok komst Forssell einn í gegn og lék á Keller sem greinilega fór í lappirnar á honum en á óskiljanlegan hátt dæmdi dómarinn aðeins horn þegar að vítaspyrna hefði verið eini rétti dómurinn. Lokatölur því 2-1 fyrir Chelsea og allt stefnir í háspennu leik á Three Point Lane eftir tvær vikur. Liðið í kvöld: Cudicini, Melchiot, Babayaro, Terry, Desailly, Lampard, Morris (Ferrer 45), Dalla Bona, Zola (Jokanovic 66), Hasselbaink, Eiður Smári (Forssell 73).
Varamenn ónotaðir: de Goey, Keenan.