Akin segist hafa fengið tilboð frá Liverpool
Bulent Akin hjá Galatasaray segir að hann hafi fengið tilboð frá
Liverpool. Þessi snjalli miðjumaður segist hafa rætt við menn
frá Liverpool en enn hafi samningar ekki tekist. Liverpool og
Newcastle hafa verið orðuð við Akin og hann segist vera ósáttur
með stöðu sína hjá Gala. Hann á von á því að ganga til liðs við
Liverpool þó hann sé búinn að hafna tilboði frá félaginu.
“Þeir vildu fá mig með einhverjum skilyrðum sem ég vildi ekki
samþykkja,” sagði Akin. “Ég sagði þeim að ég myndi semja án
skilyrðanna og þeir tóku því. Við ræðum saman bráðlega og ég á
von á að samkomulag takist.”
Akin hefur verið gagnrýndur nokkuð hjá Galatasaray að
undanförnu og hann er alls ekki sáttur við þessa gagnrýni.
“Þeir elska mig ekki hjá Galatasaray. Ég hef verið gagnrýndur
eftir hvern einasta leik. Ég spila á miðjunni en hjálpa mikið til í
vörn og sókn. Þeir virðast ekki sjá hvað ég geri og það finnst
mér dapurlegt. Ég mun greina frá öllu þegar þar að kemur. Ég
mun segja frá því hver elskar mig og hver ekki.”
Púllarar geta skoðað þennan ástlausa mann þegar þeir mæta
Galatasaray í meistaradeildinni í næsta mánuði. Liðið hlýtur að
vera á höttum eftir nýjum miðjumanni því Gary McAllister er
orðinn aldraður maður og ekki er víst að Jamie Redknapp verði
mikið lengur á Anfield. Akin er samningsbundinn Gala til
sumars 2003.