Pat Lampard, móðir Frank Lampard miðjumanns Chelsea lést á sjúkrahúsi í gærkvöldi úr lungnasjúkdómi, 58 ára að aldri.

Pat var lögð inn á spítala 14.apríl síðastliðinn vegna sjúkdómsins. Frank missti af tveimur leikjum Chelsea þegar hann var hjá móður sinni á sjúkrahúsinu en hann hóf æfingar að nýju síðastliðinn sunnudag og lék gegn Liverpool í Meistaradeildinni í fyrradag.

Hins vegar er óvíst hvort hann leiki síðari leikinn í næstu viku og hvort hann leiki með Chelsea í toppslagnum gegn Manchester United á laugardag eftir andlát Pat.

,,Félagið mun bjóða fram allan þann stuðning sem hægt er til Frank og fjölskyldu hans á þessum tímum,“ sagði í yfirlýsingu frá Chelsea.

,,Frank og fjölskylda hans vill þakka öllu því fólki sem hefur sýnt þeim stuðning. Frank vill einnig þakka fyrir samúðina sem hann hefur fengið frá Avram Grant og öllu starfsfólki Chelsea á tímum sem hafa verðið hrikalega erfiðir fyrir hann og fjölskyldu hans,” sagði í yfirlýsingu frá umboðsmanni Lampard.

Hræðilegt þegar fólk deyr svona langt um aldur fram. Lamps á alla mína samúð.