David Beckham sagði á fréttamannafundi í London í dag að það væri mikill heiður að eiga þess kost að spila sinn 100. landsleik fyrir Englands hönd gegn Frakklandi á miðvikudag. Hann hefði hinsvegar ekki hug á að láta þar við sitja, heldur ætlaði hann sér að spila mikið fleiri landsleiki.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um þennan frægasta knattspyrnumann Englands eftir að hann yfirgaf evrópska fótboltann á síðasta ári og hóf að leika með LA Galaxy í Bandaríkjunum. Fabio Capello, nýráðinn landsliðsþjálfari Englands og fyrrum þjálfari hans hjá Real Madrid, valdi Beckham ekki í hópinn fyrir leikinn gegn Sviss í síðasta mánuði en nú er kappinn í 23ja manna hópnum sem býr sig undir slaginn við Frakka.

„Þetta snýst alls ekki um það að ná 100. leiknum og hætta svo. Ég stefni að því að halda áfram og reyna að gera mitt besta fyrir þjóð mína. Fyrir einum til tveimur árum bjóst ég ekki við því að ná 95 leikjum, hvað þá 100. Það er mikil heiður að eiga þess kost að spila 100. leikinn, sem ég geri vonandi, gegn einu af bestu landsliðum heims, en það er jafnframt markmið mitt að halda áfram,“ sagði Beckham á fundinum þar sem hann svaraði fjölda spurninga úr ýmsum áttum, með bros á vör að vanda.

Hann kvaðst m.a. stefna að því að leika með enska landsliðinu í úrslitum heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku sumarið 2010 en þá verður hann orðinn 35 ára gamall.

„Ég stefni að því, og það yrði frábært að vera hluti af hópnum árið 2010. En ég tek einn leik í einu, maður veit aldrei hvað gerist næsta dag,” sagði Beckham og taldi ekki að það ætti að hafa áhrif á möguleika sína með landsliðinu þó hann spili með bandaríska liðinu.

„Það er ekki eins mikill munur á deildinni í Bandaríkjunum og sterkustu deildunum í Evrópu og margir halda. Svo hefur minn leikur aldrei snúist um hraða, það hefur aldrei verið mitt sterkasta vopn að bruna framhjá bakvörðum og senda svo boltann fyrir markið. Ef ég fæ boltann á kantinum þarf ég lítið svæði til að koma honum á réttan stað,“ sagði Beckham.

Vangaveltur hafa verið uppi um að Beckham verði gerður að fyrirliða í þessum 100. landsleik. Hann vísaði því á bug og kvaðst ekki einu sinni viss um hvort hann yrði í liðinu, á varamannabekknum, eða hvort hann kæmi við sögu í leiknum.

„Ég veit ekkert um slíkt. John Terry er fyrirliði og verðskuldar það. Hann er frábær fyrirliði og mun halda áfram að vera frábær fyrirliði hjá Chelsea og enska landsliðinu,” sagði David Beckham.

Peter Shilton á landsleikjamet Englands en hann varði mark liðsins í 125 leikjum. Aðrir sem hafa náð 100 leikjunum eru Bobby Moore (108), Bobby Charlton (106) og Billy Wright (105), og Beckham verður því sá fimmti í röðinni, taki hann þátt í leiknum í París á miðvikudagskvöldið.

heimild www.mbl.is
AAAAAAAAAA'U'U'U'U'U'U'U'BAAAA