Hvernig leggst komandi ár í ykkur. Þó svo að það sé langt í þetta þá ætla ég að koma með stuttar hugleiðingar um hvert lið

Breiðablik - Blikar koma með sterkt lið í deildina að ári að öllum líkindum. Þeir lentu í sama sæti og þeim var spáð og með örlítilli heppni gætu þeir hafa lent aðeins ofar.

FH - FH hefur átt góðu gengi að fagna í fyrri umferðum undanfarinna móta en misst dampinn þegar á leið tímabilið. Eftir að hafa misst titilinn til Vals gæti verið að þeir hafi áttað sig á því af fullri alvöru. Mín spá: 2. - 5. sæti

Fjölnir - Grafarvogsliðið hefur komið skemmtilega á óvart, með því að komast í úrslitum bikarkeppninnar og að vinna sér sæti í efstu deild. Liðið er hinsvegar að miklum hluta byggt upp af lánsmönnum frá FH sem verða sennilega ekki þar næsta tímabil. Fjölnir á eftir að koma á óvart, og sennilega halda sér uppi. Mín spá: 9.-12. sæti

Fram - Framarar hafa mikla seiglu og áttu markakónginn í ár. Liðið mun hinsvegar lenda í basli og með fráhverfi Ólafs Þórðarsonar sé ég þá ekki endilega lenda hátt í töflunni. Mín spá: 8.-12. sæti

Fylkir - Eftir slakt tímabil 2006 sýndu þeir mátt sinn í ár og lentu í 4. sæti. Liðið féll þó úr leik gegn Fjölni í bikarnum og gengi þeirra hefur verið í jójó stíl, tapað stórt eða unnið stórt, og allt þar á milli. Mín spá: 5.-8. sæti

Grindavík - Grindvíkingar snúa aftur í efstu deild eftir dapra framistöðu 2006. Þeir urðu 1. deildarmeistarar og getur liðið alltaf verið líklegt til árangurs. Grindavík er þó stærsta spurningamerki næsta árs, í það minnsta frá mínum bæjardyrum séð. Mín spá: 6.-9. sæti

HK - Eftir ágæta byrjun á fyrsta tímabili sínu í efstu deild dalaði HK svolítið þegar á leið mótið. Gunnleifur markvörður þeirra var besti maður liðsins og má segja að hann hafi haldið þeim í efstu deild þegar litið er aftur á tímabilið. Mín spá: 9.-12. sæti

ÍA - Skagamenn hafa voru sterkir í ár og má þar kannski helst (en alls ekki eingöngu) þakka Guðjóni Þórðarsyni fyrir. Sterk framistaða þeirra í síðari hluta móts skilaði þeim 3. sætinu, þvert á allar spár. Spurning er þó hvað Guðjón gerir næsta ár. Mín spá: 2.-5. sæti

Keflavík - Eftir að hafa byrjað tímabilið af krafti hrundi leikur þeirra eftir ónefnt atvik í deildinni. Keflavík hefur ekki náð sér á strik síðan þá og misst marga lykilmenn til útlanda eða í meiðsli. Ég býst ekki við mikilli flugeldasýningu frá Keflvíkingum á næsta ári. Mín spá: 7.-10. sæti

KR - Þá er komið að aðalliðinu. Hörmulegt gengi í ár undirstrikaði það að aðferðir Teits nokkurs Þórðarsonar voru algjörlega út í hött. Með Loga kom ákveðinn ferskleiki í liðið og bjargaði það sér naumlega frá falli. Það sem KR-ingar gera kröfur um á hverju ári er titill og ekki breytist það með svona hörmungartímabili. Mín spá: 1.-5. sæti

Valur - Sem ríkjandi Íslandsmeistarar koma Valsmenn fullir sjálfstrausts í næsta mót. Valur er með geysisterkt lið sem ég sé ekki fyrir mér neðarlega. Willum Þór KR-ingurinn hefur sýnt það að mikil mistök voru að reka hann og er hann mjög öflugur þjálfari. Mín spá: 1.-3. sæti

Þróttur - Alltaf hafa Þróttarar reglulega komið sér upp í úrvalsdeild, og yfirleitt farið rakleikis niður aftur. Ég held að Þróttur verði spúttnik lið næsta árs. Þeir ná loks stöðugleika í veru sína í efstu deild og með markakóng Íslandsmótsins 2001, Hjört Hjartarson, og þeirri staðreynd að þeir ætla að spila á Valbjarnarvelli sé ég þá koma mörgum liðum á óvart. Mín spá: 4.-7. sæti


Ekki koma með óþarfa skítköst, endilega deilið með okkur hugleiðingum/spám ykkar.