Fyrirliði Frakka, Marcel Desailly, segir að landsliðið hafi ekki verið upp á sitt besta á árinu en telur að það verði komið í gírinn fyrir HM. “Ég held að Frakkar hafi ekki enn sýnt hvað þeir virkilega geta. Þetta lið hefur hæfileika sem vart er hægt að ímynda sér,” sagði fyrirliðinn í viðtali við France Football.
“Liðið sem vann Euro 2000 var miklu sterkara en það sem varð heimsmeistari. Fólk segir að leiðin liggi niður á við eftir að sigrar hafi unnist en við höfum sannað að það hefur rangt fyrir sér. Ef allir strákarnir fara þangað með rétta hugarfarinu, með sama viljastyrkinn, er ég viss um að við komum mörgum á óvart þar sem við erum með frábæra leikmenn. Ég hef spilað í mörgum liðum, t.d. AC Milan, og ég veit hvað ég er að segja. Ég þekki frábært lið þegar ég sé það.”
Frakkar þurftu ekki neina undankeppni til að komast á HM og því hefur undirbúningur einskorðast við æfingaleiki. Liðið hefur tapað þremur af 13 leikjum á árinu, leikjum gegn Spáni, Ástralíu og Chile. Tvö síðasttöldu liðin komust ekki í úrslitakeppnina og því hafa margir efasemdir um að Frakkar geti varið titil sinn.
“Það er satt að við höfum ekki sýnt getu okkar. Við hefðum getað spilað mun betur á þessu ári. Þetta er eiginlega ómeðvitað. Stundum erum við aðeins of feimnir,” sagði fyrirliðinn.
Desailly segist mjög feginn að Frakkar þurfi örugglega ekki að mæta Hollendingum í HM. “Ég veit ekki mikið um andstæðinga okkar. Ég er bara ánægður með að Hollendingar séu ekki með. Árið 1998 vorum við ánægðir með að mæta Brasilíu í úrslitunum þar sem Hollendingarnir voru mikið sterkari. Það sama var uppi á teningnum í Euro 2000. Við vorum hræddir við að mæta Hollendingum á heimavelli þeirra og það er miklu auðveldara að spila gegn Ítalíu.”
Desailly telur að Þýskaland og Brasilía séu hættulegir andstæðingar þrátt fyrir að liðin hafi lent í vandræðum í undankeppninni. “Ég hefði orðið mjög ánægður ef þessi lið hefðu setið heima. Þau eru líkleg til afreka. En Þjóðverjarnir og Brasilíumennirnir verða að bæta sig verulega ef þeir vilja komast í undanúrslitin.”