Juventus er komið með Barcelona í kapphlaupið um að fanga framherjann knáa Pedro Mantorras hjá Benfica en fyrir hann má borga 53 milljónir punda. “Það er heiður að Juventus skuli hafa áhuga á mér,” sagði leikmaðurinn. “Juventus er frábært lið og spilar í einni af bestu deildum heims. Allir vilja spila þar. Ég hef fengið önnur tilboð og örlög munu ráða. Stjórn Benfica tekur ákvörðun um þetta.”
Mantorras gat farið til Arsenal og Inter þegar hann kaus að fara til Benfica í apríl 2001 en þá samdi hann til fjögra ára. Hann varð markakóngur deildarinnar með Alverca. Hann náði ekki að skora í tveimur fyrstu leikjunum með Benfica en skoraði svo þrennu gegn Vitoria Setubal og hefur vakið mikla athygli.
Benfica er skuldum vafið vegna nýja leikvangsins síns og gæti því verið freistandi að moka inn seðlum með því að selja framherjann. Luis Filipe Vieira sagði í september að hann yrði svo sannarlega ekki ódýr. Hann sagði: “Mantorras vill spila með Benfica og því munum við ekki selja hann í lok tímabilsins. Hann mun verða hér í tvö ár enn og við munum aðeins skoða tilboð upp á að minnsta kosti 53 milljónir punda. Hann vill þetta sjálfur.”