Atli Eðvaldsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KSÍ um að hann verði landsliðsþjálfari til ársins 2004, eða fram yfir undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Atli tók við landsliðinu haustið 1999. Dregið verður í undankeppni EM 25. janúar á næsta ári.

Tilkynnt var um ráðningu Atla á blaðamannafundi í dag, þar sem samningurinn var undirritaður. Í máli Eggerts Magnússonar formanns KSÍ kom fram, að líklegt væri að Ísland yrði í 3. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM. Þar verða tíu riðlar með fimm liðum.

Á fundinum var einnig tilkynnt að á næsta ári yrði leikinn opinber landsleikur við Færeyjar. Er áætlað að þessi leikur verði vígsluleikur fyrir knattspyrnuhús, sem er í byggingu í Grafarvogi.
Don't take life too seriously… You'll never get out of it alive anyway :)