Ronaldo og Nistelrooy Ég ætla að byrja á því að setja hér inn grein sem ég tók af manutd.is.

..og hér er hún..
—–
Ruud van Nistelrooy verður ekki með í kveðjuleik Roy Keane á Old Trafford annað kvöld. Hann er farinn til Hollands til að hitta landa sína en liðið undirbýr sig fyrir heimsmeistarakeppnina í Þýkalandi undir stjórn átrúnaðargoðs van Nistelrooy, Marco van Basten. Flestir virðast á einu máli um að dagar van Nistelrooy á Old Trafford séu taldir en ýmsar kenningar eru uppi um raunverulegan aðdraganda þess að van Nistelrooy var ekki í leikmannahópi United gegn Charlton á sunnudag.

Algengasta kenningin er sú að van Nistelrooy hafi lent saman við Cristiano Ronaldo á æfingum United. Graham Hunter, sérfræðingur írsku sjónvarpsstöðvarinnar Setanta Sports í evrópskri knattspyrnu, ræddi málið í viðtalsþætti á stöðinni í kvöld. Þar sagði hann: „Í janúar skiptust Ruud van Nistelrooy og Cristiano Ronaldo, sem bókstaflega þola ekki hvorn annan, á höggum svo bein brotnaði í andliti Ronaldo. Á sunnudag var van Nistelrooy ekki valinn í lið Manchester United og fór í burtu. Daginn áður hafði Ruud og Ronaldo lent saman á æfingu. Ronaldo hélt boltanum of lengi og van Nistelrooy spurði aftur: „Af hverju hangirðu á boltanum, af hverju sendirðu ekki á mig? Ég er kominn í færi, ég er framherjinn, láttu mig hafa boltann.“ Ronaldo svaraði fyrir sig og þeim lenti saman og van Nistelrooy hreytti í Ronaldo, eins og hann gerir alltaf, „Farðu og vældu í pabba þínum.“ Þar átti hann við Carlos Queiroz, aðstoðarmann Ferguson. Faðir Ronaldo lést í vetur svo hann brestur í grát og öskrar „Ég á engan föður, hann er dáinn.“ Þetta þarf þó ekki að þýða endalok van Nistelrooy á Old Trafford því hann er markaskorari og Ferguson vill vera með fjóra framherja hjá félaginu. Það sem ekki er víst að Sir Alex viti er að Cristiano Ronaldo er harðákveðinn í að fara frá Manchester United í sumar, ef Madríd vill hann. Hann hefur fengið nóg af Manchester United pg enska boltanum. Þannig að ef Ronaldo segist vilja fara gætu van Nistelrooy og Ferguson sæst,“ segir Hunter.

Í frétt The Independent sem Andy Mitten, ritstjóri stuðningsmannaritsins United We Stand og dálkahöfundur United Magazine, ritar er haldið áfram. „Van Nistelrooy mætti á sunnudag og reiknaði með að spila. Þegar hann komst að því að hann hefði ekki verið valinn í liðið sagði hann við Gary Neville: „Gangi ykkur vel, ég er farinn.“ Hann tók leigubíl frá hótelinu sem liðið dvaldi á yfir á Old Trafford, settist upp í bílinn sinn, keyrði beina leið út á Manchesterflugvöll og upp í næstu vél til Hollands.“

„Ruud virtist foxillur þegar hann fór,“ er haft eftir vitni á Old Trafford í The Sun. Blaðið segir van Nistelrooy hafa verið í fýlu alla vikuna á æfingum og átt í sífelldum orðaskiptum við samherja sína. Í pistli sínum fyrir leikinn gegn Charlton í leikskrá United ritaði Ferguson. „Ef einhver reynir ekki verðskuldar hann að vera tekinn fyrir. Menn geta ekki blekkt stuðningsmennina. Þeir taka slíku afar illa og það geri ég líka.“

Sumir halda því fram að van Nistelrooy hafi beðið eftir því í allan vetur að yfirgefa United eftir að hafa verið talinn frá því í fyrra að fara til Real Madríd. Sumir segja Ferguson hafa hrakið van Nistelrooy í burtu og seinast á sunnudag hafi Hollendingurinn fengið að heyra að hann væri ekki velkominn í hóp United. Sannleikurinn í máli virðist því miður sá að samband Ferguson og van Nistelrooy mun ekki gróa.

Rodger Linse, umboðsmaður van Nistelrooy, skellir skuldinni á Sir Alex. „Ruud fór ekki frá Manchester United, hann var rekinn í burtu. Við höfum ákveðið að tjá okkur ekki um málið, við ætlum ekki niður á sama plan og Ferguson hefur verið í fjölmiðlum.“
—–
Og ég spyr fólk eftir þessa lesningu. Hvort viljið þið frekar halda Ruud van Nistelrooy eða hinum magnaða Cristiano Ronaldo???

Mín skoðun er sú að henda Ruud þeim fúla gaur úr liðinu. Ekki miskilja mig, ég elska þennan markaskorara. En svona gaur sem dregur moralinn niður og hendir skítköstum í samherja sína á bara að hypja sig.

Og frekar vildi ég halda Ronaldo sem er rétt að byrja sinn frábæra feril en Nistelrooy, sem er að klára sinn frábæra feril.
Við eigum góða framherja sem geta tekið við af Ruud en engan kantmann jafn góðan og Cristiano Ronaldo.



Hvað segið þið??