Einar Þór Daníelsson skoraði fyrir KR gegn Fram þriðja árið í röð í úrvalsdeildinni þegar hann gerði sigurmark Íslandsmeistaranna á Laugardalsvellinum í fyrrakvöld. Einar hefur skorað fimm sinnum gegn Fram í deildinni á undanförnum sjö árum.
*EINAR er orðinn fjórði markahæsti KR-ingurinn í efstu deild með 38 mörk. Aðeins Ellert B. Schram (62), Þórólfur Beck (49) og Gunnar Felixson (44) hafa skorað fleiri. Guðmundur Benediktsson er fimmti með 37 mörk.

*KR-INGAR sigruðu Fram í 57. skipti í efstu deild Íslandsmótsins, frá því félögin léku um fyrsta meistaratitilinn árið 1912. Fram hefur unnið 38 leiki en 29 hafa endað með jafntefli.

*GUNNAR Heiðar Þorvaldsson, sóknarmaðurinn ungi í liði Eyjamanna, skoraði 800. mark ÍBV í efstu deild þegar hann tryggði liði sínu sigurinn á Val, 2:0, á lokamínútunni í Eyjum í fyrrakvöld. ÍBV er sjötta markahæsta lið efstu deildar frá upphafi, á eftir KR, Val, ÍA, Fram og Keflavík.

*VALUR hefur ekki náð að sigra í síðustu sjö heimsóknum sínum til Vestmannaeyja í efstu deild karla. Valsmenn unnu síðast þar 1993 en hafa síðan tapað 5 sinnum og gert tvö jafntefli.

Valur hefur þó vinninginn í heildarleikjum liðanna í deildinni, hefur unnið 26 en ÍBV 20, og 13 hafa endað með jafntefli.