Júgóslavneski framherjinn Dejan Djokic sem verið hefur til reynslu hjá Eyjamönnum undanfarnar vikur hefur ekki staðið undir væntingum og verður sendur heim.Hann fékk góðan tíma til að sanna sig en að vel athuguðu máli fannst Eyjamönnum ekki rétt að semja við hann þar sem framlína þeirra er ágætlega mönnuð og hafði Djokic víst ekki upp á neitt nýtt að bjóða.

Enska landsliðskonan Sammy Britton leikur ekki meira með ÍBV í Kvennadeildinni í sumar. Hún er farin frá Vestmannaeyjum til að leika með enska landsliðinu í úrslitum Evrópumóts landsliða í knattspyrnu, en þar sem Ásthildur Helgadóttir er komin til liðs við ÍBV, töldu forráðamenn félagsins ekki ástæðu til að fá Britton aftur að keppninni lokinni því þær leika sömu stöðu á vellinum. Britton, sem varð markahæsti leikmaður ÍBV í fyrra, lék aðeins tvo leiki með liðinu að þessu sinni en hún hefði ekki byrjað að leika á ný með ÍBV fyrr en seint í næsta mánuði.