Hreinn Hringsson gerði öll mörk KA þegar liðið vann Tindastól 4-0 á Akureyri í gær. Heimamenn gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik og þá skoraði Hreinn þrívegis. Hann bætti síðan fjórða markinu við um miðjan síðari hálfleik. KA-menn hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína 4-0 og virðast ætla að standa undir væntingum.

Sumarliði Árnason var líka á skotskónum í gærkvöldi. Hann gerði þrennu þegar Víkingur vann Dalvík 6-1 á Valbjarnarvelli. Víkingur var 2-0 yfir í hálfleik en Þorleifur Árnason minnkaði muninn fyrir Dalvíkinga í byrjun síðari hálfleiks. Sumarliði svaraði fyrir Víkinga og eftir það gáfust Dalvíkingar upp. Ágúst Guðmundsson, Lárus Hudarson og Kári Árnason bættu þremur mörkum við og tryggðu Víkingum stóran sigur.

Í 2. deild voru tveir leikir. Haukar unnu Selfoss 3-1 á Ásvöllum og Afturelding vann Skallagrím 4-1 í Borgarnesi. Afturelding og Haukar hafa sex stig eftir tvær umferðir ásamt Létti sem lagði Víði 2-1 á fimmtudag.

Tekið af: www.boltinn.is