KR-ingar eru enn að fá til sín erlenda leikmenn og nú er til reynslu hjá þeim 18 ára gamall sóknarmaður frá Trinidad og Tobago, en sem kunnugt er kræktu Fylkismenn í sóknarmann þaðan, McFarlane, fyrir skömmu. Nýlega höfnuðu KR-ingar Skotanum Sean Sweeney, sem kom til reynslu til þeirra, en sá er varnarmaður. Annar erlendur leikmaður sem KR hefur fengið til sín er sóknarmaðurinn Moussa Dagnogo, en hann lék með liðinu gegn Fylki á þriðjudag. Að sögn Leifs Grínssonar, framkvæmdarstjóra rekstrarfélags KR, segir að leikmaðurinn sé kominn til KR á kostnað umboðsmanns hans, svo KR tapi ekkert á því að fá hann, vilji þeir bjóða honum samning. Þess má geta að ensku liðin Aston Villa og Coventry hafa sýnt leikmanninum áhuga.