Dalvíkingar sóttu ekki gull í greipar á móti Fjarðabyggð á Leiknisvelli þann 1. april. Leikurinn fór fram í blíðskaparveðri á gervigrasi og máttu okkar menn þola stórtap fyrir þeim austanmönnum. Leikurinn byrjaði ágætlega, sótt var á báða bóga og nokkur ágætisfæri sköpuðust hjá báðum liðum. Leikurinn var nokkuð harður á köflum, og þurfti einn leikmanna Fjarðarbyggðar að hverfa af velli á sjúkrabörum eftir samstuð við varnarmenn Dalvíkur. Á 28 mín dró til tíðinda, Gummi Kristins tók hornspyrnu og hrökk boltinn af varnarmanni Andstæðingana og í netið. Síðan á 35 mín fengu Dalvíkingar dæmda vítaspyrnu sem Jóhann Hreiðarsson tók en markvörður Fjarðarbyggðar gerði sér lítið fyrir og varði hana. En slakur dómari leiksins taldi markvörðinn hafa hreyft sig of fljótt og skyldi því vítið endurtekið. Aftur fór Jói Hreiðars að vítapunktinum en allt kom fyrir ekki. Markvörðurinn varði aftur! og til að kóróna fyrri hálfleikinn jöfnuðu austanmenn leikinn á 41 mínútu með góðu marki frá vítateigshorni.Seinni hálfleikur byrjaði ágætlega, nokkur færi litu dagsins ljós en síðan ekki söguna meir. Þórir fékk gult spjald á 52 mín og síðan komust austanmenn yfir á 67 mín 1-2. 3 mínútum seinna bættu þeir öðru marki við og á 78 mín gulltryggðu þeir sigurinn með fjórða markinu. Lokatölur leiksins urðu því 1-4 og í samtali við þjálfara Dalvíkur, Pétur Ólafsson kom fram að að undanförnu hafi verið ansi erfiðar æfingar og leikmenn því þreyttir, þó það sé engin afsökun. Leikmenn voru einfaldlega ekki að sýna sitt besta í dag og því fór sem fór.