Rangers sigraði Dunfermline 6-1 í dag og tryggði sér þar með skoska meistaratitilinn í knattspyrnu en Rangers og Celtic enduðu bæði með 97 stig en markatala Rangers var örlítið betri. Celtic vann Kilmarnock 4-0 á útivelli en það nægði þeim ekki og því þurfa þeir að bíta í það súra epli að enda í öðru sætinu í deildinni. Rangers var 73 mörk í plús en Celtic 72 mörk í plús. Það verður ekki mikið jafnara en þetta.

Michael Mols kom Rangers yfir gegn Dunfermline strax á 3. mínútu en Jason Dair jafnaði metin á 11. mínútu. Á Rugby Park komust leikmenn Celtic yfir á 16. mínútu gegn Kilmarnock en þar var á ferðinni Chris Sutton. Á sömu mínútu komust leikmenn Rangers aftur yfir en núna var það Claudio Caniggia sem skoraði. Shota Arveladze skoraði svo þriðja mark Rangers á 30. mínútu og þeir virtust vera með þetta allt í hendi sér. Chris Sutton náði að setja aftur spennu í þetta þegar hann skoraði annað mark Celtic á 43. mínútu. Í byrjun seinni hálfleiks náðu svo Celtic að skora úr vítaspyrnu og allt í einu voru þeir komnir á toppinn. Það var samt ekki lengi því á 64. mínútu komust Rangers í 4-1 og svo 5-1 á 67. mínútu og því aftur komnir upp fyrir Celtic á markatölu. Stilian Petrov skoraði fjórða mark Celtic á 83. mínútu en Rangers náði að setja eitt í blálokin og gulltryggja þetta og því eru Rangers skoskir meistarar tímabilið 2002-2003.

Kveðja kristinn18