Forráðamenn Inter Milan hafa vísað fréttum um að þeir hafi hug á því að kaupa Ryan Giggs á bug, en Walesverjinn var mikið orðaður við félagið á nýliðnum fardögum.
“Hann (Giggs) er ekki inni í framtíðaráformum okkar því Alvaro Recoba er yngri og efnilegri í þessari stöðu,” sagði Gabriele Oriali, tæknilegur framkvæmdastjóri Inter, í samtali við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport í dag.

Ljóst er að bið verður á því að Luke Chadwick verði lánaður til Cardiff City. United hafa samþykkt tilboð Cardiff, og hefur leikmaðurinn tekið vel í það, en kona hans á von á barni innan skamms og flækir það málin töluvert.
“Luke kemur ekki til okkar fyrir laugardaginn og verður tæplega kominn til okkar á laugardaginn eftir viku,” sagði Lenny Lawrence, stjóri Cardiff, í dag.
“Við höfum samt enn áhuga á leikmanninum.”