Haukur Ingi til Austurríkis? Fyrrum leikmaður Liverpool, landsliðsmaðurinn Haukur Ingi Guðnason, hefur að undanförnu verið hjá Austurríska úrvalsdeildarliðinu Kärnten. Haukur Ingi hefur verið á mála hjá Keflavík seinustu misseri en þeir féllu úr úrvalsdeildinni hér heima í sumar. Forráðamenn Kärnten hafa heillast af Hauki og ætla að bjóða honum samning. Hjá félaginu er fyrir einn íslendingur, Helgi Kolviðsson. Haukur er samningsbundinn Keflvíkingum þannig að fyrst þarf að ræða við Suðurnesjamenn. Það kæmi sér mjög vel fyrir Keflavík að þeir fái góða upphæð frá Austurríki þar sem félagið er rekið við þröngan fjárhag. Haukur segist sjálfur vonast til þess að Keflavík græði vel á sér.

Hann verður að gefa Kärnten ákveðið svar fyrir 15. nóvember og það er frekar knappur tími fyrir eitthvert samningaþras. Verði af samningum við liðið, sem er mjög líklegt, getur Haukur hins vegar ekki leikið með því fyrr en eftir vetrarhléið, í lok febrúar á næsta ári. Í samtali við Morgunblaðið í morgun segist honum lítast vel á sig hjá liðinu og er spenntur að skoða tilboð þeirra til hlítar þegar að því kemur.