Scott Ramsey, sem leikið hefur með Grindvíkingum síðan sumarið 1998 er genginn til liðs við Íslandsmeistara KR. Ramsey, sem er 27 ára gamall Skoti, hóf feril sinn hér á landi með Reyni í Sandgerði og lék þar í tvö sumur, 1996 og 1997. Síðan lá leiðin til Grindavíkur og þar hefur hann verið þar til nú. Hann hefur leikið 81 leik í efstu deild og gert 8 mörk í þeim. Hann leikur venjulega á vinstri vængnum.

KR ætlar að vera með breiðan leikmannahóp næsta sumar og hafa náð samningum við Kristján Örn Sigurðsson, sem er bróðir Lárusar Orra. Kristján er efnilegur varnarmaður sem spilaði mjög vel fyrir KA í sumar. Framherjinn Garðar Jóhannsson er kominn til liðsins frá Stjörnunni. Þá eru KR-ingar á höttunum á eftir Hilmari Björnssyni fyrirliða FH og ætti það að skýrast á næstu dögum hvort að Hilmar gengur í raðir fyrrverandi félaga sína í KR.

Ragnar Árnason 26 ára varnarmaður úr Stjörnunni í Garðabæ er genginn til liðs við Fram. Margt bendir til þess að flestir leikmenn Stjörnunnar séu á förum frá félaginu vegna ógreiddra launaskulda til leikmanna félagsins. Í þjálfaramálum er það helst að frétta að Sigurður Jónsson verður næsti þjálfari Víkings. Sigurður, sem þjálfaði FH í sumar, var einnig með tilboð frá ÍBV og nú er spurningin hver tekur við ÍBV.