Arfaslakir Íslendingar láu fyrir Skotum Skotar lögðu arfaslaka Íslendinga að velli í undankeppni EM í dag 2-0. Þetta var fyrsti leikur Íslendinga í riðlinum og ef við spilum svona á miðvikudag náum við líklega ekki í stig gegn Litháum. Ísland fékk blauta tusku framan í sig strax á 6.mínútu þegar West Ham kappinn Christian Dailly kom Skotum yfir eftir skógarhlaup hjá Árna Gauti. Hættulegasta færi hálfleiksins var þegar Eiður Smári skaut í slána en staðan 0-1 í hálfleik. Leikur Íslands í seinni hálfleik var ekki skárri en í þeim fyrri og Gary Naysmith bætti öðru marki við í síðari hálfleik úr glæsilegu skoti frá vítateigslínu. Skotar unnu 2-0. Nú getur Atli Eðvaldsson ekki gert annað en að kalla í Þórð Guðjóns, Tryggva Guðmundsson, Eyjólf Sverrisson og Guðna Bergsson í hópinn, ekki gengur þetta svona til lengdar.

Athygli vakti að Bjarni Guðjónsson kom inn fyrir Hauk Inga í seinni hálfleik en á sama tíma var greinilegt að Rúnar Kristinsson var meiddur og hafði beðið um skiptingu. Sú beiðni var ekki tekin gild og stóð Rúnar á annarri löppinni síðustu 15 mínútur leiksins og var til lítils gagns. Nú er líklegt að hann missi af leiknum gegn Litháen. Svo verð ég að lýsa yfir undrun minni á því að Bjarni Þorsteinsson er í byrjunarliðinu. Ég er búinn að fá mig fullsaddan af fáránlegum vinnubrögðum Atla Eðvaldssonar, þessi maður er ekki sá rétti til að stjórna landsliðinu en síðan Tékkaleikurinn frægi var þá höfum við ekki unnið nema einn landsleik og var hann gegn Andorra! Við höfum tapað fyrir N-Írum, Dönum, Skotum og Ungverjum. Atli, það er nóg komið. Þú ert ekki á réttri leið. Fyrir leikinn var talað um að Skotar hafi ekki átt svona slakt landslið í áraraðir og ekki nóg með það heldur voru bestu leikmenn liðsins ekki með. Færeyingar náðu jafntefli en við erum greinilega minni menn. Sérstaklega var fyndið að sjá viðtal á Stöð tvö við einn skoskan áhorfenda sem sagðist ekki vita hvernig hann ætti að bera sig að við þessar aðstæður enda væru Skotar ekki vanir sigri.

Talandi um skosku aðdáendurna, það má með sanni segja að þeir hafi gert okkar litla bæ litríkari enda voru um 3000 manns sem fylgdu liðinu til landsins. Á föstudagskvöldinu voru þeir blindfullir niðrí bæ að drekka bjór eins og þeir ættu lífið að leysa en framkoma þeirra var til fyrirmyndar. Ég hef aldrei mætt á fótboltaleik þar sem jafnmikið er af karlmönnum í pilsi. Þá var stemmarinn rosalegur hjá þeim í stúkunni og sungu þeir frá 1.mínútu til loka leiks. Gaman að þessari heimsókn frá litríkum stuðningsmönnum Skotlands. Ég er að hugsa um að kaupa mér eitt stykki sekkjarpípu.