Kjartan Antonsson til Fylkis Fylkismenn hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir næsta sumar. Kjartan Antonsson, sem leikið hefur með ÍBV undanfarin fimm ár, gekk í gær til liðs við nýkrýnda bikarmeistara Fylkis. Kjartan er 26 ára miðvörður og á að baki 88 leiki í efstu deild, þar af 23 með Breiðabliki. Hann hefur átt við nárameiðsl að stríða og gat ekki leikið nema 11 leiki með ÍBV á nýliðinni leiktíð. Kjartan fer í uppskurð á næstunni og verður klár í slaginn um áramót. Það kemur fólki nokkuð á óvart að Fylkir kaupi þennan sterka miðvörð því fyrir eru þeir með tvo mjög sterka miðverði. Þetta gefur til kynna að Ómar Valdimarsson sé að íhuga að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meðsla. Fylkismenn halda nær öllum sínum mannskap á næsta ári.

Valsmenn eru að undirbúa sig fyrir það að keppa aftur meðal þeirra bestu á landinu á næsta ári. Kristinn Lárusson hefur gert tveggja ára samning við liðið en hann lék með Val í mörg ár, en tók sér árs frí frá knattspyrnuiðkun, fluttist til Skotlands og lagðist í bóklestur í háskóla þar. Kristinn er 28 ára gamall framsækinn miðjumaður og kemur til með að styrkja lið Vals verulega. Hann lék á sínum tíma með ÍBV þar sem hann vann nokkra bikara með liðinu. Þess má einnig geta að fyrirliði Vals í sumar, Sigurbjörn Hreiðarsson, hefur framlengt samning sinn til ársins 2005.