Karl Frederik Ljungberg   -  "Rauða Þruman" Rauða Þruman



“Maðurinn” okkar ástkæri svíi, Freddie Ljungberg. Hann heitir fullu nafni Karl Frederick Ljungberg og gekk til liðs við Arsenal í september 1998, þaðan kom hann frá Halmstad í Svíþjóð og lék 139 sinnum fyrir það lið. Hann er ekkert hár í loftinu, 176 cm og um 76 kg. En hann er ótrúlega snöggur, skapandi og snillingur í að koma sér inn fyrir vörnina nánast óséður og skorað mörg mörk á þann hátt.. Það fyrir utan er hann ótrúlegur vinnuhestur, og það er oft hrein unun að horfa á manninn spila. Freddie er jafnvígur leikmaður á miðju og kanti og leysir báðar stöður frábærlega af hólmi, en leikur vanalega á hægri eða vinstri kanti. Hann hefur leikið 154 leiki fyrir Arsenal og skorað í þeim 37 mörk. Eitt af fallegri mörkum sem hann hefur skorað var á móti Chelsea í FA Cup finals 2002 og hefur verið nefnt eitt af fallegustu mörkum sem sést hafa í FA Cup. Ekki slæmt fyrir mann sem var keyptur á slikk, 2-3 milljónir punda .. man ekki töluna alveg í augnablikinu. Hann átti óskabyrjun fyrir Arsenal, kom inn á í fyrsta sinn gegn Manchester United á Highbury og skoraði gegn þeim eftir aðeins 5 mínútna leik, geri aðrir betur! Það má til gaman nefna að hann hefur skorað í nánast hverjum einasta leik sem hann hefur spilað á móti Manchester United hingað til. Freddie er litríkur persónuleiki innan sem utan vallar, og hefur löngum verið þekktur fyrir frumlegar hárgreiðslur. Hann þykir einnig einn af betri klæddum mönnum Arsenal og má nefna að hann og Tony Adams sáu um að velja klæðnaðinn sem Arsenal klæddust fyrir leik Arsenal - Liverpool í FA Cup Finals 2001. Helsta vörumerki Freddies, rauði kamburinn hefur fengið að fjúka einhverntímann í sumar, en við bíðum spennt eftir að hann láti lita hárið rautt aftur, enda hefur viðurnefnið Rauða Þruman verið að festast við hann. Hann meiddist á mjöðm í lok síðasta tímabils, en er nýkominn aftur til leiks, og brást ekki aðdáendum Arsenal, og skoraði mark í sínum fyrsta leik fyrir aðalliðið eftir meiðslin. Er hægt að hugsa sér betri leikmann ?