Eins og áhugamenn muna riðu ítölsk félagslið ekki feitum hesti frá Evrópukeppni meistaraliða síðasta vetur, og þótti mörgum sýnt að ítalski boltinn væri komin í alvarlega tilvistarkrísu. Við skulum vona að úrslit gærdagsins séu lýsandi fyrir það sem koma skal. Juventus brytjaði Dynamo Kænugarð niður með fimm mörkum gegn engu í Tórínó um leið og AC Milan gersigraði Deportivo La Coruna 4-0 á Spáni. Gaman að sjá hve vel Marco Di Vaio fellur inn í lið Juve (finnst þér það ekki annars JohnnyB?), skoraði tvívegis í gær, og Pavel Nedved var sömuleiðis í ham. Alex Del Piero hélt uppteknum hætti og setti inn eitt og loks setti Edgar Davids inn glæsilegt mark og vonandi að þessi stórleikmaður sé kominn á flugið aftur. Auðvitað munu einhverjir segja “isss, það er ekkert varið í Dynamo Kyiv þessa stundina, og svo voru Juve að spila á heimavelli…” en það breytir því ekki að sigurinn er góður.
En svona afsakanir finnast engar fyrir hið firnasterka lið Deportivo sem skíttapaði á heimavelli fyrir “Il Rossoneri”. Nema kannski að fjarvera Juan Carlos Valeron skipti svona miklu?! Til að minna menn á styrk Deportivo þá er þetta liðið sem lagði Bayern München á Olympiastadion í München í síðustu viku í fyrstu umferðinni. Clarence Seedorf opnaði leikinn með marki á 17. mín. og svo var komið að kafla San SuperPippo sem skoraði þrennu. Það er hérmeð staðfest að þessi leikmaður er ekki hægt! Með þessu hat-trikki skaust hann uppfyrir Allesandro Altobelli sem markahæsti ítalski leikmaðurinn fyrr og síðar í Evrópukeppni; 40 mörk í 50 leikjum. Og við Milanmenn sem röfluðum haustið 2001 yfir kaupunum á Inzaghi, ja, við lítum frekar stooopid út núna. Mikið hrottalega er gaman aftur að halda með Milan :D
Varðandi gengi ítölsku liðanna þá er enn spurningamerki við hin liðin tvö í keppninni, AS Roma og Internazionale. Roma fékk á baukinn gegn Real Madrid fyrir viku (tapaði 3-0 á heimavelli) og Inter náðu ekki nema jafntefli gegn Rosenborg. Í kvöld halda Rómverjar til Grikklands til að spila við AEK Aþenu og verða bara að fara vinna leik, annars er ansi hætt við að Fabio Capello verði höggvinn brott úr þjálfarasætinu. Inter taka á móti Ajax Amsterdam á Giuseppe Meazza San Siro og er sá leikur sýndur á Sýn strax á eftir PSV Eindhoven-Arsenal. Verður spennandi að fylgjast með framgangi mála, og vonum að ítölsku liðunum gangi betur í CL í ár - einkum AC Milan :)