Stelpurnar úr leik Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu lék á sunnudag seinni leik sinn við Enska kvennalandsliðið en fyrri leikurinn á Laugardalsvellinum endaði með 2-2 jafntefli. Erla Hendriksdóttir og Olga Færseth skoruðu mörk Íslands fyrir framan rúmlega 3.000 áhorfendur. Ensku stelpurnar náðu að jafna nokkrum mínútum fyrir leikslok og reyndist það mark þeim mjög dýrmætt. Stelpurnar okkar komu ekki nógu ákveðnar til leiks á St.Andrews í Birmingham og virkuðu stirðar. Þó fengu þær ágætis færi í leiknum sem þær náðu ekki að nýta. Rétt fyrir leikslok skoraði Amanda Barr eina mark leiksins fyrir England og þar við sat. 0-0 hefði ekki dugað íslenska liðinu þar sem þær ensku hefðu komist áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Það verða því Englendingar sem mæta Frökkum í úrslitaleikjum um laust sæti á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Kína. Þrátt fyrir tapið getur íslenska liðið borið höfuðið hátt því þær stóðu sig mjög vel í keppninni og hefur íslenska kvennalandsliðið aldrei verið svona nálægt því að komast á stórmót. Greinilegt að Jörundur Áki Sveinsson er að gera mjög góða hluti með þetta lið.