maðurinn með stálandlitið - grínlaust - “þeir þurfa sko ekki að segja mér að fara. Ég mun vita það sjálfur. Þegar ég vakna einhvern morguninn og hugsa, “þarf ég virkilega á þessu að halda?”, þá hætti ég”

þetta er smá útdráttur úr viðtali við Bobby Robson, Newcastlestjóra, sem blaðamaður The Sunday Times að nafni Joe Lovejoy (hæfir nú betur klámstjörnu en blaðamanni) tók við kallinn um daginn.
Þar kemur fram að þrátt fyrir krabbamein heldur kallinn áfram í baráttunni, og stefnir á toppinn, nú sem endranær.

Robson spilaði fyrir Fulham fyrir meira en 50 árum síðan og stýrði Newcastle með aldeilis frábærum árangri í fyrra, þó flest gangi á afturfótunum eins og er, en andsk… hafi það, held það eigi nú eftir að batna enda svaka mannskapur. Gengur þó frekar illa að skora, akkúrat nú.
Í ágúst 1995 kom í ljós svaka túmor í andliti Robsons og honum sagt að hugsanlega ætti hann hálft ár eftir. Hann gæti látið þetta eiga sig og þá myndi þetta fara í augun og svo í heilann, hann gæti líka tekið sénsinn og farið í aðgerð. Sem hann og gerði, sem betur fer fyrir hann og Newcastlefana.
Robson var að þjálfa Porto í Portúgal á þessum tíma en aðgerðin var gerð í Bretlandi.
Þurfti að fjarlægja framtennur að ofan og gera aðgerð í gegnum nebbann, fjarlægja svo æxlið og planta einhverju sem heitir obturator - sem er einhverskonar hylki sem varnar því að gufur og sennilega í þessu tilviki loft, flæði á milli staða þar sem ekki má – til að halda andlitinu í lagi. Annars myndi það hreinlega falla saman.
Eftir þessa aðgerð var kalli auðvitað sagt að hætta í þessu fótboltaveseni, hann væri nú kominn á aldur og ætti hvort sem er nóga peninga. En um leið og hann losnaði við andlitsgrímu (svona eins og í óperudraugnum) fór kall til Portúgals, enda samningsbundinn til loka tímabils.

lagað til í rústunum

En nokkrum árum seinna var Robson, þá 66 ára gömlum, boðið að taka við Newcastle, liðinu sem hann hafði haldið með nánast frá barnæsku.
Liðið í algjöru lamaslysi, að berjast í botnbaráttu og með skuldir upp á 44 milljónir punda og allt í rúst eftir dvöl Ruud Gullit hjá þeim röndóttu.
Samt tókst kalli að grenja út 700 þús pund fyrir Kevin Gallacher frá Blackburn og betri tíð var í vændum.
Fjórða sætið náðist í vor og nú þurfti meiri pening, enn fleiri leiki en áður þurfti að spila og það vantaði nýtt blóð. Kallinn keypti hinn 19 ára Jermaine Jenas frá Nottingham Forest fyrir 5 millur en mörg lið vildu strák. Titus Bramble kom frá Ipswich og hann náði að krækja leikmanni Evrópu af yngri kynslóðinni (European Young Player of the Year), Portúgalanum Hugo Viana, nánast úr höndum Liverpoolmanna.
Þrátt fyrir að liðið eigi að vera jafnvel ívið betra nú en í fyrra má ekki gleyma því að liðin sem urðu fyrir ofan þá, hafa líka bætt mannskap í flotann, þannig að verkefnið er ærið fyrir kallinn, þó ekki sé nema að ná aftur í fjórða sætið.

fílar ekki umboðsmenn

Hann Jói Lovejoy spyr hvort það sé jafngaman nú í framkvæmdastjóradjobbinu eins og fyrir 35 árum síðan, ekki síst þar sem Meistaradeildin bætist nú ofaná.
“þá var þetta nánast bara áhugamál og gaman í sportinu. Nú snýst allt um bisnisshliðina, ekkert nema peningar og aftur peningar. Það er verð á leikmönnum og kaup og kjör og auðvitað umboðsmenn – sem mér líkar ekki vel við”!
Þó kallinn sakni að mörgu leiti “gömlu góðu” og allra frábæru leikmannana frá fyrri tíð vill hann meina að boltinn sé enn betri í dag. Viera og Veron séu dæmi um frábæra miðjumenn sem séu skapandi og hann sjálfur sé nú kominn með Viana og Jenas.
Robson neitar því að hann sé orðinn þreyttur á boltanum og segist njóta hverrar mínútu á æfingunum. Helst vildi hann hafa meiri tíma fyrir golfið, en fótboltinn sé ennþá skemmtilegri, hvort sem er! Og þegar hann á frí, þá fer hann á völlinn að sjá önnur lið!

Elsa, góða Elsa

En hvernig skyldi frú hans undanfarin 47 ár, hún Elsie, fíla þetta endalausa boltabrölt á kalli? “Hún veit að ég er fótboltafíkill og hún breytir mér ekkert héðan í frá. Ef ég segist ætla að sjá varaliðið keppa í kvöld geri ég það og hún reynir ekki að fá mig til að hætta við. Þegar við erum heima horfum við á sjónvarpið – helst fótbolta!!!
Heldurðu að ég sé alveg forfallinn? Kannski, en það eru Houllier og Wenger líka. Við megum ekki missa af neinu” segir kallinn sem er nú þokkalega hress þrátt fyrir að vera með andlitið fullt af drasli svo það falli ekki saman í hrærigraut.

Hann er snilli og veit hvað hann syngur en samt sem áður segi ég – og meina –
Áfram Leeds.
-gong-