Lélegt í Laugardal, Ísland - Ungverjaland 0-2 Frábært veður var í Laugardalnum í dag þegar Íslendingar töpuðu fyrir Ungverjum á Laugardalsvelli í vináttulandsleik. Ungverjar byrjuðu af krafti og gerðu harða hríð að marki Íslands á 12. mínútu. Fyrst varði Birkir Kristinnson aukaspyrnu frá Pal Dardai í horn og síðan bjargaði Jóhannes Karl á línu eftir skalla frá Dragoner. Íslendingar náðu ágætum kafla um miðjan hálfleikinn. Eiður Smári reyndi vippu af löngu færi en Kiraly sá við honum. Ungverjar voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Krisztians Lisztes kom inná fyrir Vasile Miriuta og var fljótur að stimpla sig inn. Hann átti þrumuskot sem Birkir gerði vel í að verja í horn og þrumaði síðan í slá. Eiður Smári fékk ágætt færi á 60. mínútu en viðstöðulaust skot hans fór hátt yfir. Ungverjar komust síðan yfir á 79. mínútu með ódýru marki. Zsolt Löw rann í gegn vinstra megin og skoraði með föstu skoti sem Birkir hefði átt að verja. Hann stóð í markinu í dag í stað Árna Gauts sem á við smávægileg meiðsli að stríða. Íslendingar bættu í sóknina og á 86. mínútu fékk Eiður fínt færi en skaut hátt yfir. Ungverjar innsigluðu síðan sigurinn á 89. mínútu en þá skoraði Dardai með góðu skoti frá vítateig, óverjandi fyrir Birki.

Í dag hófst keppni í riðli okkar íslendinga í undankeppni EM en við leikum okkar fyrsta leik ekki fyrr en 12.Október. Þjóðverjar gerðu góða ferð til Litháen í dag er liðið lagði Litháa að velli, 2-0. Færeyjar og Skotar gerðu óvænt jafntefli, 2-2, í Færeyjum en liðin eru öll í 5. riðli ásamt Íslendingum sem mæta Skotum í fyrsta leik sínum og leikur gegn Litháen einnig hér á landi miðvikudaginn 16. október.

ÁFRAM ÍSLAND, BURT MEÐ ATLA!