Fréttir (Fjölnir og KFS upp, KR kvennameistari) KR MEISTARI Í KVENNAFLOKKI
KR er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu eftir frábæran 7-0 sigur á ÍBV í Eyjum. KR hefur nú 6 stiga forystu á toppi Símadeildar þegar ein umferð er eftir og tvennan því staðreynd því KR tryggði sér bikarmeistaratitilinn þegar liðið sigraði Val í úrslitaleik sl. laugardag. TIL HAMINGJU KR!



TRANMERE VILL GUÐJÓN
Ef marka má frétt enska blaðsins Liverpool Echo í gær er Guðjón Þórðarson, þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Start, nú orðinn efstur á óskalista hjá enska 2. deildarliðinu Tranmere Rovers um að taka við stjórn liðsins. Í þessu sama blaði var Guðjón á dögunum nefndur til sögunnar sem líklegur kandídat ásamt tveimur öðrum þjálfurum, Brian Flynn, fyrrverandi stjóra Wrexham, og Ray Mathias, starfandi stjóra hjá Tranmere, en blaðið telur nú að Guðjón sé líklegastur til að hreppa hnossið.



FJÖLNIR OG KFS UPP Í 2.DEILD
Fjölnir í Grafarvogi hefur tryggt sér sæti í 2. deild að ári. Fjölnir sigraði Fjarðabyggð í síðari leik liðanna í undanúrslitum 3. deildar karla á Eskifirði 0-2 og samanlagt 4-3, og var það markahrókurinn Pétur Björn Jónsson sem skoraði mörkin tvö með glæsilegum kollspyrnum. Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í leiknum og hefðu getað bætt við mörkum, en 0-2 sigur nægði liðinu til þess að komast áfram. KFS tryggði sér einnig sæti í 2. deild á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum þrátt fyrir 0-1 tap gegn Leikni Fáskrúðsfirði. KFS kemst áfram á mörkum skoruðum á útivelli, en fyrri leikurinn á Fáskrúðsfirði endaði 2-3.