KR vann Fram en Fylkir tapaði Það var líf og fjör á Hásteinsvelli um helgina þegar fyrsti leikur 15.umferðar fór fram. ÍBV tók á móti Þór í fallbaráttuslag og komust heimamenn yfir á 31.mínútu. Bæjarstjórinn Ingi Sigurðsson átti góða sendingu á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem skoraði. Eftir þetta sóttu Þórsarar mikið og náðu að jafna fyrir hálfleik, var þar að verki hinn sjóðheiti Jóhann Þórhallson sem reynir fyrir sér hjá Bröndby í Danmörku eftir tímabilið. ÍBV var mun betri aðilinn í seinni hálfleik og skoruðu tvö mörk, fyrst skoraði Bjarni Geir Viðarsson og svo innsiglaði Bjarnólfur Lárusson 3-1 sigur úr vítaspyrnu. Mikilvæg stig til Eyjamanna.

Skagamenn nældu sér í stigin þrjú sem í boði voru í viðureign liðsins gegn Keflavík, en leikið var á Keflavíkurvelli á sunnudag. Kári Steinn Reynisson og Ellert Jón Björnsson skoruðu mörk liðsins í síðari hálfleik. Framundan er erfið fallbarátta hjá Keflvíkingum sem Skagamenn vilja ekki blanda sér í. Mér finnst furðulegt að sjá Keflvíkinga svona neðarlega í deildinni þar sem þeir spiluðu mjög vel í þeim leikjum sem ég hef séð þá í.

Á Akureyri tók KA á móti FH. Samkvæmt heimasíðu KA þá léku heimamenn ekki eins og þeir best geta og meiga vera nokkuð sáttir með stigið. FH-ingar áttu hættulegri færi, en Hreinn Hringsson kom KA þó yfir með góðu skallamarki þegar 15 mínútur lifðu af leiknum. 10 mínútum síðar jöfnuðu FH-ingar og var þar að verki Jóhann Möller. Jafntefli á Akureyrarvelli 1-1. KA er í fjórða sæti með 21 stig en FH er því sjötta sæti 18 stig.

Stórleikur umferðarinnar var leikur Grindavíkur og Fylkis. Óli Stefán Flóventsson og Grétar Hjartarson skoruðu í fyrri hálfleik og Grindvíkingar höfðu 2-0 forystu. Scott Ramsey bætti við marki í þeim síðari eftir skógarferð Kjartans Sturlusonar. Björn Viðar Ásbjörnsson skoraði eina mark gestana og úrslitin 3-1. Grindvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og komust Fylkismenn aldrei almennilega í takt við hann og verða úrslitin að teljast fyllilega sanngjörn. Grindvíkingar virðast ætla að enda tímabilið af sama krafti og í fyrra en þá unnu þeir þrjá af fjórum síðustu leikjum sínum í deildinni.

Í gær léku Fram og KR á Laugardalsvellinum. Þeir fjölmörgu áhorfendur sem mættu á leikinn urðu vitni að rigningu, lélegum dómara en þó umfram allt: skemmtilegum leik. Eggert Stefánsson kom Fram yfir með glæsilegu marki eftir hornspyrnu. Boltinn barst til hans á fjærstöng eftir um hálftímar leik og hann sendi boltann þéttingsvel í þaknetið. Adam var ekki lengi í paradís því Veigar Páll jafnaði fyrir Kr-inga í næstu sókn eftir mark Fram og fyrir hálfleik náði hann að bæta við öðru marki og KR hafði yfir 2-1. Nóg var um færi í leiknum og voru Andri Fannar Ottóson í Fram og Sigurður Ragnar Eyjólfsson í KR þar í aðalhlutverki en þeir félagar fengu nokkur dauðafæri í leiknum. Á 80.mínútu unnu Framarar vítaspyrnu sem fyrirliðinn Ágúst Gylfason skoraði úr og jafnaði í 2-2. Eftir þetta fylgdi hugsunarleysi og bara aumingjaskapur hjá Fram og þegar flautað var til leiksloka var KR 4-2 yfir. Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Veigar Páll skoruðu en sá síðarnefndi skoraði því þrennu í leiknum. KR-ingar eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu. Ég skil þó ekki hvað Eyjólfur Ólafsson dómari var að hugsa í leiknum því margir hans dóma voru vægast sagt furðulegir.

ÍBV - Þór 3-1
1-0 Gunnar Heiðar Þorvaldsson
1-1 Jóhann Þórhallsson
2-1 Bjarni Geir Viðarsson
3-1 Bjarnólfur Lárusson (v)

Keflavík - ÍA 0-2
0-1 Kári Steinn Reynisson
0-2 Ellert Jón Björnsson

KA - FH 1-1
1-0 Hreinn Hringsson
1-1 Jóhann Möller

Grindavík - Fylkir 3-1
1-0 Óli Stefán Flóventsson
2-0 Grétar Hjartarsson
3-0 Scott Ramsey
3-1 Björn Viðar Ásbjörnsson

Fram - KR 2-4
1-0 Eggert Stefánsson
1-1 Veigar Páll Gunnarsson
1-2 Veigar Páll Gunnarsson
2-2 Ágúst Gylfason (v)
2-3 Sigurður Ragnar Eyjólfsson
2-4 Veigar Páll Gunnarsson