Spá mín fyrir leiki helgarinnar:

Man.City 1-3 Man.Utd
ManU er í a.m.k. 2 gæðaflokkum fyrir ofan city og þó svo að það skipti ekki alltaf máli í leikjum sem þessum þá er ManU á það góðri siglingu að þeir ættu að vinna þennan leik nokkuð örugglega.

Everton 1-2 Arsenal
Þó Everton sé ávallt erfitt heim að sækja þá held ég að Arsenal verði of góðir fyrir þá í þessum leik. Vopnabúrið hikstaði aðeins í síðasta leik og það kemur ekki fyrir tvo leiki í röð hjá liði eins og Arsenal.

Leeds 2-0 West Ham
Leedsarar eru einfaldlega með betra lið en West Ham þrátt fyrir öll meiðslin í herbúðum þeirra. West Ham hefur heldur ekki gengið sem skyldi það sem af er leiktíðar og þó það hljóti að styttast í að þeir fari að rétta úr kútnum þá á það ekki eftir að gerast í þessum leik.

Charlton 2-3 Chelsea
Einn erfiðasti leikurinn í þessarri umferð til að spá fyrir um. Charlton hefur gengið vel það sem af er leiktíð en ekki er hægt að segja það sama um Chelsea sem hefur gengið afleitlega á útivelli. Ég hef þó trú á að það breytist í þessum leik og ætli Eiður Smári skori ekki bara sigurmarkið.

Derby 2-1 Bradford
Bæði lið hafa átt í erfiðleikum það sem af er og Derby ekki enn náð að sigra en hafa hins vegar gert 7 jafntefli. Ég held að jafnteflið á Highbury um síðustu helgi hafi fært leikmönnum Derby aukið sjálfstraust og með tilkomu Taribo West hef ég trú á að þetta sé að koma hjá þeim.

Middlesboro 1-1 Leicester
Leicester hefur komið á óvart með góðu gengi en Middlesboro siglir enn í sama farinu, spila leiðinlegan bolta og gengur illa og það mun ekkert breytast fyrr en þeir skipta um stjóra. Heimavöllurinn á þó eftir að bjarga stigi fyrir 'boro í þessum leik.

Southampton 0-1 Aston Villa
Villa hefur verið að spila vel og eru aðeins 2 stigum frá 3. sætinu og eiga leik til góða. Þeir ættu að vinna þennan leik nokkuð auðveldlega en Southampton er samt þekkt fyrir að gefast ekki upp og gætu átt eftir að stríða þeim svolítið.

Newcastle 3-2 Sunderland
Þessi leikur hefur allt sem til þarf til að verða hörkuleikur og ég hef fulla trú á að hann verði það. 5 mörk og 2 rauð spjöld er mín spá og ég held að heimavöllurinn eigi eftir að skipta sköpum og sigurmarkið falli Newcastle mönnum í skaut.

Tottenham 1-3 Liverpool
Blindaður af ást minni á Liverpool get ég ekki annað en spáð þeim sigri og ég held að það sé líka raunhæf spá. Graham er ekki að gera neina stóra hluti með þetta Tottenham lið en Liverpool hefur verið í fanta formi, sóknarlega séð, undanfarið og það breytist ekki nú, það er aðeins spurning hvort vörnin haldi.

Coventry 2-2 Ipswich
Ipswich er eina úrvalsdeildarliðið sem hefur skorað í öllum leikjum sínum á leiktíðinni og hafa komið mér mjög á óvart með góðu gengi. Coventry er, eins og maður átti von á, neðarlega í deildinni og stefnir í enn eitt árið í fallbaráttu hjá þeim. Eftir fjóra tapleiki í röð er coventry farið að lengja í sigur og leikmenn Ipswich eiga eftir að vera fegnir með eitt stig í leikslok.
kv.