Fylkir gerði jafntefli við Belgana Fylkismenn voru ekki langt frá því að leggja belgíska félagið Moeskroen að velli á Laugardalsvellinum í gær þar sem liðin skildu jöfn, 1-1. Möguleikar þeirra á að komast áfram verða því að teljast frekar litlir fyrir seinni leikinn úti í Belgíu 29.Ágúst, en þangað fóru þeir einmitt í keppninni í fyrra og fengu þá 3-0 skell gegn Roda.

Fylkismenn byrjuðu leikinn í kvöld ágætlega og hefðu hæglega getað verið búnir að setja mark áður en Daniel Hoch kom Moeskroen yfir á 26. mínútu. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru Belgarnir sterkari en Fylkismenn komu hins vegar grimmir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru mark á 60. mínútu sem Sverrir Sverrisson skoraði úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Sævari Þór Gíslasyni innan teigs. Fylkismenn fengu nokkur ágætis færi það sem eftir lifði leiks og hefðu með örlítilli heppni getað klárað leikinn, en því miður gekk það ekki upp að þessu sinni.

Sævar Þór Gíslason var svekktur með að hafa ekki náð að leggja Belgana: “Við vorum mun betri í seinni hálfleik og hefðum átt skilið að vinna leikinn. Við eigum þó enn möguleika og ég vona að sem flestir stuðningsmenn Fylkis komi með okkur til Belgíu og styðji vel við bakið á okkur”.

Stuðningsmenn Fylkis létu heyra vel í sér í stúkunni og munu eflaust flestir mæta á Fylkisvöll á mánudagskvöldið til að styðja sína menn gegn Eyjapeyjum sem töpuðu í gær sínum Evrópuleik 0-2 gegn AIK í Svíþjóð. Fyrra markið kom á 26. mínútu leiksins. “Þegar markið kom höfðu þeir ekki fengið eitt einasta færi. Við áttum slæma þversendingu á miðjum vallarhelmingi þeirra, sem þeir komust inn í og náðu að vera fjórir á móti þremur. Svíinn skaut aðeins frá vítateigshorninu alveg efst í vinkilinn fjær. Ansi hreint flott mark hjá honum. Síðara markið kom svo alveg undir lokin, á 90. mínútu. Það var gefið fyrir markið og maður var við stöngina fjær og skoraði,” sagði Njáll Eiðsson þjálfari ÍBV.