Tottenham hafa snúið sér að Fernando Morientes, sóknarmanni Real Madrid, eftir að hafa mistekist að ná í Rivaldo.

Áhangendur Tottenham hafa verið óánægðir með stefnu Glenn Hoddle í leikmannakaupum, en hann hefur helst verið að kaupa lítt þekkta og ódýra leikmenn til liðsins. Nú síðast gagnrýndi miðjumaðurinn Tim Sherwood einnig stefnu liðsins og virðast tilraunir Tottenham til að næla í Rivaldo og Morientes vera til þess fallnar að róa aðdáendur.

Vandamál Tottenham felst hins vegar í því að þær stjörnur sem þeir sækjast eftir hafa lítinn áhuga á Lundúnarliðinu, Rivaldo fór til AC Milan og Morientes hefur engan hug á að yfirgefa Real til að fara til Tottenham.

Morientes hefur hins vegar lýst því yfir að hann langi til að spila fyrir Lundúnarlið, en greinilegt er að Tottenham High Road er ekki ofarlega á lista hjá honum.

Tottenham heldur hins vegar áfram leit sinni að stjörnusóknarmanni og líklegt að þeir leggi leið sína til Mallorca til að ræða þar við Nígeríumanninn Samuel Eto'o.