Fjórir leikir fóru fram í Símadeildinni í gær:

Fylkismenn komust á topp deildarinnar með sigri á Keflavík. Í fyrri hálfleiknum voru Fylkismenn eina liðið á vellinum og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk en þeir gerðu. Sævar Þór Gíslason skoraði á 20.mínútu eftir sendingu frá Theodór Óskarssyni en þeir tveir voru bestu menn vallarins. Theodór hafði fyrr í leiknum átt skot í markstöng og Finnur Kolbeinsson var einnig nálægt því að skora en Ómar varði vel. 15 markskot voru á mark gestanna í fyrri hálfleik meðan ekki eitt einasta kom á hott markið! Eftir 50 mínútur skoraði Sævar Þór sitt annað mark en Hrafnkell Helgason átti sendinguna að þessu sinni. Keflvíkingar hresstust eftir þetta án þess að ná að skora.

Fyrri hálfleikur í leik Grindvíkinga og Skagamanna var mjög fjörugur. Liðin sóttu á báða bóga og voru framherjar liðanna frískir. Óli Stefán Flóventsson kom heimamönnum í Grindavík yfir eftir 26 mínútna leik. Grétar Hjartarsson skoraði svo gull af marki á 35.mínútnu þegar hann snéri knettinum efst í hægra markhornið. Aðeins tveimur mínútum síðar náði Kári Steinn Reynisson að minnka muninn fyrir ÍA í 2-1. Grindavík spilaði sterka vörn í seinni hálfleiknum. Þeir náðu góðum sóknum og munaði litlu að Grétar og Óli Stefán náðu að bæta við mörkum. Garðar Skagamaður átti lokaorðið en skaut framhjá og heimamenn unnu.

Ekifjendurnir Þór og KA leiddu saman hesta sína á Akureyri (hvar annarstaðar?!). Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur. Þórsarar voru þó ákveðnari aðilinn. Á 23.mínútu var mikil þvaga á markteig KA en Þórsarar náðu ekki að skora. Elmar Dan Sigþórsson fékk besta færi hálfleiksins fyrir KA en Atli Þór Rúnarsson var kominn aftur í mark Þórsara og varði meistaralega. Seinni hálfleikur var mun fjörugri og þar byrjuðu KA menn betur og áttu nokkur hörkuskot sem hittu ekki á rammann áður en eina markið leit dagsins ljós. Það var Neil McGowan sem skoraði það með skalla eftir hornspyrnu. Alexandre Santos fékk eina færi Þórs í hálfleiknum á meðan KA-menn voru duglegri að skapa sér færi og unnu leikinn.

Í Frostaskjólnu voru FH-ingar í heimsókn hjá KR. 1777 áhorfendur skemmtu sér örugglega vel á leiknum þar sem fjögur mörk voru skoruð. Veigar Páll Gunnarsson var áberandi í sóknarleik KR og var nálægt því að koma þeim yfir en það var þó Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem gerði það. Markið kom á 32.mínútu eftir frábæra sendingu frá Þórhalli Hinrikssyni. Sex mínútum síðar fékk Jón Þorgrímur Stefánsson boltann á vinstri kanti, lék upp að vítateig og þrumaði boltanum glæsilega upp í fjærhornið. FH búið að jafna metinn. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk KR vítaspyrnu en Daði Lárusson varði slaka spyrnu frá Sigurði Ragnari. Í seinni hálfleik voru FH-ingar betri, Kristján Finnbogason kom KR til bjargar og einu sinni bjargaði Sigþór Júlíusson á marklínu. Guðmundur Sævarsson kom svo FH-ingum yfir á 85.mínútu og héldu margir að nú væri öll von úti fyrir KR. Þeir gáfust þó ekki upp og jöfnuðu rétt fyrir leikslok þegar Sigurður Ragnar bætti fyrir vítaspyrnuklúðrið og jafnaði með yfirveguðu skoti. Sanngjarnt jafntefli 2-2.

Fylkir - Keflavík 2-0
1-0 Sævar Þór Gíslason (20)
2-0 Sævar Þór Gíslason (49)

Grindavík - ÍA 2-1
1-0 Óli Stefán Flóventsson (26)
2-0 Grétar Hjartarsson (35)
2-1 Kári Steinn Reynisson (37)

Þór - KA 0-1
0-1 Neil McGowan (56)

KR - FH 2-2
1-0 Sigurður Ragnar Eyjólfsson (32)
1-1 Jón Þ. Stefánsson (38)
1-2 Guðmundur Sævarsson (85)
2-2 Sigurður Ragnar Eyjólfsson (89)