Þjóðhátíð hjá Fram Framarar gerðu í gær góða ferð til Eyja eins og í fyrra. ÍBV spilaði mun betur í fyrri hálfleiknum en náðu ekki að skora og því markalaust. Ágúst Gylfason gerði eina mark leiksins úr umdeildri vítaspyrnu á 50. mínútu, en hana fékk Þorbjörn Atli Sveinsson þegar honum var brugðið innan vítateigs. Eyjamenn léku einum leikmanni færri mestallan síðari hálfleik því Tómasi Inga Tómassyni var vikið af leikvelli á 56. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

Úrslit leiksins þýða að liðin hafa sætaskipti í deildinni, Framarar komast í sjöunda sæti en ÍBV er í níunda og næstneðsta sæti. Sigur í þessum leik hefði sett Eyjamenn í þægilega stöðu nú í upphafi þjóðhátíðar. Á ibv.is má lesa þessi fleygu orð: “Öll nótt er ekki úti enn en það verður að viðurkennast að þessi fótbolti sem ÍBV liðið er að spila er ekki upp á marga fiska og sá slakasti í allmörg ár og spurning hvort hann eigi heima í efstu deild karla?” Það er spurning!

ÍBV - Fram 0-1
0-1 Ágúst Gylfason (v) 50

Þið skemmtið ykkur annars bara vel um helgina. Gangið hægt inn um gleðinnar dyr!