Elísabet rekin frá ÍBV - Allt vitlaust í Eyjum! Elísabetu Gunnarsdóttur, þjálfara kvennaliðs ÍBV, var sagt upp störfum en forráðamenn liðsins segja ástæðuna vera samskiptaörðuleika við bæði leikmenn og stjórn kvennadeildar ÍBV. Fram kemur á eyjafrettir.is að allir leikmenn liðsins styðji ákvörðun stjórnarinnar og munu áfram spila með liðinu. Fyrirliði liðsins, Michelle Barr, mun taka við liðinu amk. fyrst um sinn en Stefanía Guðjónsdóttir, sú þekkta handboltakona, mun aðstoða við þjálfun ásamt því að sjá um þjálfun 2. flokks.


Elísabet er alls ekki sátt við þetta og hefur sent frá sér fréttatilkynningu:

Eftir að hafa verið sagt upp störfum sem þjálfari m.fl.kv. hjá ÍBV vil ég koma eftirfarandi atriðum málsins á framfæri til fjölmiðla:

Stjórn ÍBV gefur fjölmiðlum þá skýringu að mér hafi verið sagt upp vegna samskiptaörðugleika, annars vegar milli þjálfara og leikmanna og svo hins vegar milli þjálfara og stjórnar. Ég vil að fram komi eiginlegar ástæður uppsagnarinnar en þær koma fram í meðfylgjandi skjali (afrit að uppsagnarbréfinu).

Liður nr.1 í uppsögninni, þar sem leikmenn eru ásakaðir um ólöglega inntöku lyfja, er mjög alvarleg og það sem þar kemur fram um að slík inntaka hafi farið fram með minni vitneskju og að ég hafi hylmt yfir með þeim með því að upplýsa ekki stjórn knattspyrnuráðs ÍBV um það, skaðar mannorð mitt og starfsheiður. Inntaka á ólöglegum lyfjum samhliða íþróttaiðkun hefur mér aldrei þótt sæmandi og hef ég aldrei hvatt til slíks og mun aldrei líta framhjá slíkri notkun.

Liður nr. 2, þar sem fjallað er um samskiptaörðugleika milli mín og leikmanna, þykir vart svaraverður. Ágreiningur milli leikmanna og þjálfara á sér víða stað og tel ég þetta málefnalegt vandamál sem ég lagði mig fram við að leysa. Hvergi kemur fram í uppsagnarbréfi mínu að samskiptaörðugleikar hafi verið milli mín og stjórnarinnar enda hafði hún fram að uppsögninni talið mér trú um það að stjórnin stæði við bakið á mér og öllum mínum ákvörðunum.

Í framhaldi af þessu get ég ekki annað en talið að uppsögnin sé ólögmæt enda hef ég á engan hátt brotið þann samning sem í gildi er milli mín og Knattspyrnuráðs ÍBV. Ég hef fengið lögfræðing til að sækja málið þar sem ég tel mig eiga rétt á uppgjöri í málinu og mun ég sækja rétt minn eins langt og hægt er.

Með þessari tilkynningu lít ég svo á að ég hafi svarað málinu frá minni hendi og mun lögfræðingur minn sjá um málið í framhaldinu.

Elísabet Gunnarsdóttir.