Grindavík fór illa með Fram Fram sá aldrei til sólar í Laugardalnum í gær þar sem Grindvíkingar voru í heimsókn. Ray Jónsson var aðeins 5 mínútur að koma Grindavík yfir þegar hann skoraði úr aukaspyrnu. Eftir 20 mínútna leik átti Grétar Hjartarsson skot í stöng og náði stuttu seinna að koma boltanum í mark Framara en var rangstæður. Á 37.mínúru átti Óli Stefán Flóventsson fína rispu, lék vörn Fram grátt og Paul McShane átti skot sem fór í hendi eins varnarmanns Fram og vítaspyrna dæmd. Ólafur Örn Bjarnason skoraði úr spyrnunni. Framarar spiluðu einum leikmanni færri eftir þetta því Ásgeir Halldórsson fékk rautt. Í seinni hálfleik voru Framarar skárri og áttu m.a. stangarskot. En Grindvíkingar höfðu samt yfirhöndina og Grétar Hjartarsson skoraði fallegt mark og tryggði Grindavík 3-0 sigur. Þeir rúmlega 500 áhorfendur sem mættu á leikinn fengu heldur lítið fyrir peningana sína.

Í Keflavík var ÍBV í heimsókn. Það vakti athygli að alls voru sjö leikmenn byrjunarliðs Keflvíkinga örvfættir! Það var þó réttfættur Keflvíkingur sem skoraði eina mark leiksins sem kom á 11.mínútu. Var þar að verki Haukur Ingi Guðnason. Undir lok leiksins hljóp ungur piltur yfir endilangan völlinn á meðan leikur stóð sem hæst. Hann virtist ekki gera sér grein fyrir að leikurinn var í fullum gangi þrátt fyrir að hlaupa á móti dúndrandi sókn Kevlíkinga. Gaman að þessu! En Keflavík vann 1-0.

Keflavík - ÍBV 1-0
1-0 Haukur Ingi Guðnason 11. mín

Fram - Grindavík 0-3
0-1 Ray Jónsson 5. mín
RAUTT Ásgeir Halldórsson (37)
0-2 Ólafur Örn Bjarnason (v) 37. mín
0-3 Grétar Hjartarson 90. mín