Ég hef velt því fyrir mér hvort að hin óvænta niðurstaða HM í sumar hafi valdið verðhruni á leikmannamarkaðinum í Evrópu. Hvert stórveldi Evrópu á fætur öðru féll úr keppni langt fyrir það sem búist hafði verið við. Skinið af stórstjörnunum var daufara en áður og margir spurðu sig þeirrar spurningar hvort evrópski boltinn væri búinn að vera. Eru stjörnurnar í boltanum virklega orðnar latar, ofdekraðar og spilltar?? Eða er álagið á þessa menn bara orðið svo mikið að þeir eru sprungnir á limminu? Því verður vart svarað, en það má benda á að Rivaldo átti ekki náðugt tímabil á Spáni en brilleraði engu að síður á HM og ef það síðarnefnda er rétt, þá ættu t.d. landsliðsmenn Hollands að brillera í vetur.

Sennilega eru skýringarnar margþættar en markaðurinn er samt daufari en áður og fæstir virðast vera tilbúnir að greiða það sem sett er upp fyrir leikmenn. Menn standa og klóra sér í höfðinu og vita ekki alveg hvernig þeir eiga að lesa í hlutina. Á að kaupa 5 Suður Kóreanska leikmenn eða bara einn Ítala? Það kostar svipað. Eða er hægt að lækka ítalann í verði vegna þess hvað hann spilaði illa á HM??

Sem dæmi má nefna að upphaflega var talað um að LIverpool þyrfti að hrista 15 millur úr buddunni fyrir Bowyer. Þeir “fengu” hann síðan á 8-9, en afþökkuðu það síðar. Fyrir ári síðan var talið að Nuno Gomez, sem margir bjuggust við að yrði ein af stjörnum mótsins væri um 12 milla virði, en nú er talið að sá sem er til í að borga 5 millur geti fengið hann. Real Madrid eru líka hættir að eltast við þá Pires og Viera og raunar ef grannt er skoðað hefur enginn úr fyrrverandi HM liði frakka verið á faraldsfæti. Einn eftirósttasti bakvörðurinn á síðasta ári, hinn franski Lizarazu hefur látið lítið á sér kræla á þessu sumri, en mörg félög voru stöðugt á eftir honum á síðasta sumri. Eiður “okkar” Guðjohnsen hefur ekki farið varhluta af þessu og nú er sagt að Chelsea séu tilbúnir að láta hann fara fyrir 10 millur. Áætlað verð í vetur var talið á bilinu 14-18 millur.

Að vísu hafa margir eins og áður verið orðaðir við þessi hefðbundnu félög í slúðrinu. Man Utd, Liverpool, Arsenal, Milan, Inter og Barcelona eru þar efst á blaði eins og venjulega og ef eitthvað væri að marka þessa “orðróma”, þá myndi Man Utd kaupa 35-50 leikmenn á ári hverju. Nú kaupa þeir að öllum líkindum bara einn. Meira að segja Ítölsku félögin sem hafa stundum nánast skipt út öllum hópnum á hverju tímabili hafa verið róleg. Inter virðast ekki lengur hafa áhuga á að sprengja bankann með því að kaupa Beckham eða Owen.

E.t.v. er skýringin líka að miklu leyti sú að eftir verðbólguna síðustu ár þá eru mörg félög illa stödd og geta hreinlega ekki greitt mikið fyrir leikmenn. Við erum nefnilega ekki að tala um neina smáaura. Það þarf ekki marga Ríó Ferdinanda til að ná veltu íslenska ríkisins. Þetta peningaleysinsástand hefur síðan knúið menn til að horfast í augu við þá staðreynd að eftir allt saman tryggja dýrir leikmenn ekki árangurinn og niðurstaðan á HM gerði kannski sitt líka til að opna augun fyrir því.