Liðin sem léku til úrslita í fyrra eru komin áfram Í gær fóru fram tveir leikir í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarsins. Í kvöld fara síðan hinir tveir leikirnir fram en báðir hefjast kl.20:00. Í Vestmannaeyjum leika ÍBV og Leiftur/Dalvík á meðan Fram mætir Keflavík í Laugardalnum.

Í Árbænum í gær mættust Fylkir og ÍA. Þessi lið mættust fyrir stuttu í deildinni þar sem Skagamenn unnu öruggan sigur. Það voru þeir sem byrjuðu betur og Kári Steinn Reynisson kom þeim yfir strax á 6. mínútu. Heimamenn tóku fljótlega völdin á vellinum og markaveisla þeirra hófst á 25. mínútu þegar að Steingrímur Jóhannesson jafnaði metin. Finnur Kolbeinsson kom Fylki yfir undir lok fyrri hálfleiks og strax í upphafi þess síðari skoraði Theódór Óskarson þriðja markið. Fljótlega eftir það mark kom ég á völlinn en þar var ekki margt fallegt að sjá. Fylkismenn spiluðu varlega og bombuðu boltanum bara fram á sína fljótu framherja. Það gekk ekki hjá Skagamönnum að koma sér í góð færi og rothögg Fylkis kom svo undir lokin þegar að Björn Viðar Ásbjörnsson skoraði fjórða markið og lokatölur því 4-1 fyrir Fylki.

Úrvalsdeildarlið KA var ekki í teljandi vandræðum með Breiðablik í fyrstu deildinni. Leikið var fyrir norðan og unnu heimamenn sannfærandi sigur 3-0. Elmar Dan Sigþórsson skoraði eftir 6 mínútur, Neil McGoven bætti við öðru marki á 25.mínútnu og Steingrímur Eiðsson innsiglaði sigurinn með marki á 87.mínútu. Eftir fyrstu 25 mínúturnar voru áhorfendur að undirbúa sig fyrir markaveislu en annað kom á daginn.