Um hádegið þann 11. hélt Arsenal blaðamannafund og kom fáum á óvart að Pascal Cygan, 28 ára gamall franskur miðvörður, skyldi vera kynntur sem nýjasti leikmaður Arsenal. Hann hefur verið sterklega orðaður við liðið undanfarnar vikur og var bara tímaspursmál hvenær gengið yrði frá kaupunum á honum. Arsenal gaf hvorki upp lengd samnings hans né kaupverðið, en talið er að hann hafi samið um fjögur ár og að kaupverðið sé einungis 2,1 milljón punda, að hluta til vegna þess að Cygan átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Lille. Cygan fær treyju númer 18 hjá Arsenal, gamla númer Gilles Grimandi. Arsene Wenger hrósaði Cygan í hástert og sagði m.a.: „Pascal er frábær varnarmaður með mikla hæfileika og hefur sannað að hann getur staðið sig í erfiðum leikjum í meistaradeildinni. Hann er geysilega stöðugur og á eftir að falla vel inn í leik liðsins. Hann er skipuleggjandi og leiðtogi í vörninni auk þess sem að hann er örvfættur svo að hann ætti að henta vel með Keown og Campbell, þetta eru þeir kostir sem ég var að leita að. Hann er 28 ára sem er góður aldur fyrir miðvörð, hann er orðinn vanur því að leika á því stigi sem við leikum á. Ég hafði skoðað hann um nokkuð langt skeið. Það er erfitt að finna góða miðverði því að öll stóru liðin eru að leita að miðvörðum, við þurftum því að taka áhættu, að mínu mati er þetta þó lítil áhætta. Ég hef trú á því að hann eigi eftir að bæta sig hérna og komast í franska landsliðið.“ Cygan talar litla ensku en Wenger túlkaði fyrir hann á blaðamannafundinum: „Ég er mjög ánægður að hafa gengið til liðs við Arsenal. Þeir voru aðalliðið á Englandi á síðasta ári og ég vonast til að hjálpa liðinu að vinna titilinn aftur á þessu tímabili. Ég hlakka mikið til að vinna með Arsene Wenger sem er þekktur sem einn af bestu þjálfurum heims, auk þess að fá að vera í hópi svo margra heimsklassaleikmanna. David Dein tilkynnti einnig á fundinum að Martin Keown og Oleg Luzhny hefðu skrifað undir nýja tveggja ára saminga við Arsenal auk þess sem að stutt er í að Seaman semji við liðið. Dein sagðist einnig eiga frekar von á því að Tony Adams leggi skóna á hilluna í sumar en það eigi eftir að koma betur í ljós og hugsanlega skýrist það um helgina.