Skagamenn unnu Fylki örugglega Skagamenn flugu í gær alla leið úr níunda sætinu upp í það fjórða í Símadeildinni þegar þeir sigruðu Fylki, 3-1, á Fylkisvelli. Árbæingum mistókst þar með að ná efsta sætinu á ný úr höndum KR-inga sem nú eru með tveggja stiga forskot í deildinni. Bjarki Gunnlaugsson kom ÍA yfir eftir 6 mínútur með skalla eftir hornspyrnu frá hægri. Sex mínútum síðar bætti Kári Steinn Reynisson við marki eftir góða sókn ÍA. Bjarki G. sendi boltann innfyrir vörnina á Ellert Jón sem renndi boltanum á Kára Stein og hann skoraði auðveldlega af stuttu færi. Á 20.mínútu komust Skagamenn í 3-0 þegar Hjörtur Hjartarson kastaði sér fram á markteig og sneiddi boltann í netið með höfðinu eftir fyrirgjöf Ellerts Jón frá endamörkum hægra megin. Eftir þetta sóttu heimamenn í Fylki grimmt en uppskáru aðeins eitt mark og það skoraði Sævar Þór Gíslason úr vítaspyrnu, úrslitin 1-3.

Í Keflavík var sannkallaður nágrannaslagur á ferðinni þegar heimamenn mættu Grindavík. Grétar Hjartarson skoraði með skalla eftir hornspyrnu Eysteins Haukssonar og kom Grindavík yfir. Hólmar Rúnarsson jafnaði metin fyrir Keflavík með skoti úr miðjum vítateig eftir undirbúning Hauks Inga Guðnasonar, staðan 1-1 í hálfleik. Grétar Ólafur Hjartarson kom Grindavík yfir á ný með marki á 71. mínútu með þrumuskoti utan vítateigs. Grétar hefur nú skorað sex mörk á leiktíðinni. Kristján Jóhannsson jafnaði fyrir Keflavík á lokasekúndum leiksins með þrumuskoti utan vítateigs, en Kristján hafði komið inná sem varamaður í síðari hálfleik. Úrslitin jafntefli 2-2.

Fylkir - ÍA 1-3
0-1 Bjarki Gunnlaugsson
0-2 Kári Steinn Reynisson
0-3 Hjörtur Hjartarsson
1-3 Sævar Þ. Gíslason (v)

Keflavík - Grindavík 2-2
0-1 Grétar Hjartarsson
1-1 Hólmar Rúnarsson
1-2 Grétar Hjartarsson
2-2 Kristján Jóhannsson