Bikarinn: Búið að draga í 8 liða úrslit Í dag var dregið í 8 liða úrslit Coca Cola bikarsins. 16 liða úrslitin fórfu fram á þriðjudag og miðvikudag. Þið finnið grein um þriðjudagsleikina í eldri grein en nú ætla ég að fjalla mjög stuttlega um leikina á Miðvikudag.

Fylkismenn tóku á móti FH í einum af stórleik 16 liða úrslitanna. Steingrímur Jóhannesson kom bikarmeisturum Fylkis yfir á 16.mínútu. Eftir rúmlega hálftíma leik náðu FH-ingar að jafna metin en Jónas Grani Garðarsson var þar að verki. Sverrir Sverrisson kom Fylkismönnum aftur yfir í seinni hálfleiknum eftir að hann fylgdi eftir skoti Gunnars Þórs Péturssonar. Eftir þetta var nokkuð ljóst að Fylkismenn væru á leiðinni í 8 liða úrslitin. Sævar Þór Gíslason og Finnur Kolbeinsson bættu við mörkum og Fylkir vann 4-1.

ÍBV vann Þrótt 2-0. Mörkin skoruðu þeir Hjalti Jónsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Í Garðabænum tók 1.deildarlið Stjörnunnar á móti úrvalsdeildarliði KA og þar endaði leikurinn í vítaspyrnukeppni þar sem KA fór með sigur úr bítum.

Fæstir áhorfendur voru í Keflavík en þar var samt mesta fjörið þegar heimamenn tóku á móti ungmennaliði ÍA. Fyrir fram var búist við auðveldum sigri heimamanna en annað kom á daginn. Staðan var jöfn 2-2 eftir venjulegan leiktíma. Hólmar Örn Rúnarsson og Guðmundur Örn Steinarsson skoruðu fyrir Keflavík en mörk Skagamanna komu frá þeim Lúðvík Gunnarssyni og Garðar Gunnlaugsson. Í framlengingunni komst Keflavík yfir með öðru marki Guðmundar Steinarssonar en Háfdán Gíslason jafnaði fyrir ÍA u23. Því þurfti að bregða sér í vítaspyrnukeppni sem var ansi skrautleg. Staðan var jöfn þegar allir leikmenn liðanna höfðu fengið að spreyta sig og því var farið í aðra umferð. Páll Gísli Jónsson sér lítið fyrir og varði frá fyrirliða heimamann Zoran Daníel Ljubicic. Garðar Gunnlaugsson gat því tryggt skagamönnum sigurinn en hann skaut yfir. Magnús Þorsteinsson skoraði en Hálfdán Gíslason náði því ekki og Keflvíkingar komust áfram en ungmennalið Skagamanna féll út með sæmd.

Í dag var dregið í 8 liða úrslitin:
Karlar:
Fram - Keflavík
KA - Breiðablik
ÍBV - Leiftur/Dalvík
Fylkir - ÍA

Konur:
Þór/KA/KS - Þróttur R
Valur - FH
KR - Breiðablik
ÍBV - Stjarnan