FH-ingar unnu fyrri leik sinn gegn Cementarnica Skopje í 1.umferð Intertoto keppninnar en leikið var í Makedóníu. Valdas Trakys var þá lykilmaðurinn á bakvið sigur Hafnfirðinga en hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri. Guðmundur Sævarsson batt endahnútinn á þetta allt saman. Seinni leikur liðanna var svo í dag, laugardag, á þjóðarleikvangi okkar Íslendinga í Laugardalnum og fóru þar Makedóníumenn með sigur af hólmi.

Guðmundur Sævarsson kom FH yfir en hann skoraði einnig í fyrri leik liðanna. Cementarnica jafnaði og skoraði síðan sigurmarkið á 51 mínútu. Þrátt fyrir ósigurinn kemst FH áfram í næstu umferð mótsins þar sem samanlögð úrslit urðu 4-3 fyrir þá. Spænska liðið Villareal verður næsti mótherji liðsins í keppninni og ætti hann að geta skilað miklum tekjum til Fimleikafélagsins. Frægasti leikmaður þess liðs er argentíski landsliðsmaðurinn Martin Palermo sem er líklega þekktastur fyrir að hafa misnotað 3 vítaspyrnur í einum og sama leiknum með landsliðinu.