KR tyllti sér í efsta sætið KR lagði Keflavík að velli í gær, 1-0. Leikið var í bítlabænum Keflavík. KR-liðið var mun betra í fyrri hálfleik og uppskar mark sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson skoraði. Sigurður gerði vel er hann þrumaði knettinum í mark á 28. mínútu af um 20 metra færi. Gunnar Einarsson kannaði styrkleikann í tréverki Keflavíkurmarksins er hann skallaði knöttinn af krafti í slá á 8. mínútu. Veigar Páll Gunnarsson átti fínan skalla rétt framhjá skömmu síðar. Arnar Jón Sigurgeirsson mokaði knettinum snyrtilega yfir á 22. mínútu. Keflvíkingar áttu aðeins eitt tækifæri í fyrri hálfleik en Guðmundur Steinarsson átti skalla framhjá en stuðningsmenn Keflavíkur vildu fá dæmda vítaspyrnu á Kristján Finnbogason, markvörð KR, í því tilviki. Guðmundur var frekar einmana í framlínu heimamanna. Jón Skaftason átti hinsvegar besta tækifæri KR í fyrri hálfleik á 38. mínútu en skot hans smaug hárfínt framhjá markstönginni.

Í seinnu hálfleik tóku heimamenn öll völd og voru í raun óheppnir að jafna ekki metin. Þórarinn Kristjánsson og Adolf Sveinsson komu inn í liðið og voru afar sprækir það sem eftir lifði leiks. Baráttan skilaði fullt af marktækifærum fyrir Keflavík og oftar en ekki voru það reynslumiklir leikmenn á borð við Þormóð Egilsson og Kristján Finnbogason sem stóðu í vegi fyrir því að liðinu tækist að koma knettinum í mark KR-inga. Guðmundur Steinarsson átti síðasta tækifæri Keflvíkinga í leiknum en Þormóður henti sér fyrir skot hans á elleftu stundu. Guðmundur lenti í samstuði við Gunnar Einarsson leikmann KR undir lok leiksins og fékk Guðmundur þungt högg á höfuðið. Farið var með Guðmund á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og þaðan var hann fluttur til Reykjavíkur til frekari rannsókna og í myndatökur á hálsi og höfði. Ekki höfðu borist frekari fregnir af líðan Guðmundar seint í gærkvöldi.

Keflavík - KR 0-1
0-1 Sigurður Ragnar (28)

Markahæstu leikmenn
4 - Gunnar Heiðar Þorvaldsson, ÍBV
4 - Grétar Ólafur Hjartarson, Grindavík
3 - Jóhann Þórhallsson, Þór A.
3 - Þorbjörn Atli Sveinsson, Fram
3 - Sigurður Ragnar Eyjólfsson, KR
3 - Sigurvin Ólafsson, KR
3 - Andri Fannar Ottósson, Fram