FH stal sigrinum af Grindavík Í gær fóru fram tveir stórskemmtilegir leikir í Símadeildinni. Ég lagði leið mína á Laugardalsvöllinn og fylgdist með leik Fram og Þórs. Framarar hreinlega óðu í færum í fyrri hálfleik og ótrúlegur klaufaskapur hjá þeim að skora ekki nema eitt mark í þeim hálfleik. Andri Fannar Ottósson skoraði það mark á 11. mínútu en njósnarar frá norskum félagsliðum voru á leiknum til þess að fylgjast með þessum unga framherja. Til gamans má geta að Andri er einnig meðlimur í hljómsveitinni “Sveittir gangaverðir” sem margir kannast við. Daði Guðmundsson jók forystu Framara á 55. mínútu. Fimm mínútum síðar minnkaði Þór muninn með marki Harðar Rúnarssonar úr aukaspyrnu en Andri Fannar tryggði sigur Fram á 71. mínútu með öðru marki sínu í leiknum. Framarar eru því komnir í fimmta sæti deildarinnar með sex stig, einu færra en KR sem leikur gegn Keflavík í kvöld í síðasta leik 5. umferðar. Mikill léttir fyrir heimamenn að ná að landa sinum fyrsta sigri í sumar, 3-1 fyrir Fram gegn Þór.

FH tók á móti toppliðinu Grindavík. Leikurinn fór af stað með látum og var Litháinn Valdas búinn að skora fyrir heimamenn eftir aðeins 2 mínútur. Þessi stóri og stæðilegi sóknarmaður hefur því gert 2 mörk fyrir FH-inga í 2 leikjum. Sagan segir að útsendarar erlendra liða hafi verið á vellinum að fylgjast með kauða (Rapid Vín?). Ólafur Örn Bjarnason, fyrirliði gestanna jafnaði metin í seinni hálfleik og stuttu síðar komst Grétar Hjartarson í gott færi og setti knöttinn framhjá Daða Lárussyni markverði FH-inga. Um miðjan seinni hálfleik var einum varnarmanni Grindavíkur vikið af velli fyrir að fella Jón Þorgrím framherja FH og léku því Grindavík 10 gegn 11 FH-ingum. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins er Emil Hallfreðsson, ungur og efnilegur leikmaður kom inn á fyrir Jóhann Möller og það var hann sem skallaði knöttinn í mark Grindavíkur eftir frábæra sendingu Jón Þorgríms. Leiktíminn var nánast liðin þegar Grindavík tók miðjuna á ný eftir jöfnunarmark FH-inga, en á síðustu sekúndu leiksins komst Jónas Grani Garðarsson, annar varamaður FH, í gott færi og setti knöttinn framhjá Alberti Sævarssyni. Lokatölur því á Kaplakrika 3-2 fyrir heimamenn og má segja að sigrinum hafi verið stolið á síðustu mínútum leiksins. Miklar sviptingar og mikið gaman.

Fram - Þór 3-1
1-0 Andri Fannar
2-0 Daði Guðmundsson
2-1 Hörður Rúnarsson
3-1 Andri Fannar

FH - Grindavík 3-2
1-0 Valdas Trakys
1-1 Ólafur Örn Bjarnason
1-2 Grétar Hjartarsson
2-2 Emil Hallfreðsson
3-2 Jónas Grani Garðarsson