Sætur sigur hjá KA í nágrannaslag Í gær mættust KA og Þór í fyrsta skipti í 10 ár í efstu deild. Alvöru nágrannaslagur, fjöldi áhorfenda og hörkustemming. KA vann leikinn en þetta var fyrsti sigur þeirra á Þór í efstu deild. Eina mark leiksins kom eftir 10 mínútur. Þá var brotið á Hreini “Bravo” Hringssyni rétt fyrir utan vítateiginn. Ásgeir Ásgeirsson skaut í varnarmúrinn úr aukaspyrnu og af honum fór knötturinn í netið. Eins og svo oft áður í svona leikjum þá voru gæði knattspyrnunnar ekki mikil en baráttan var í fyrirrúmi. Þórsarar fengu færi á svipuðum stað og KA skoraði úr en skutu í vegginn úr aukaspyrnunni rétt fyrir leikslok. Markaskorarinn Ásgeir Ásgeirsson var að vonum kátur eftir leikinn í samtali við Moggann: “Þorvaldur þjálfari var búinn að stúdera Þórsliðið vel og svo höfum við auðvitað spilað við þá áður, það er svipað og í fyrra. En ég vil líka taka það fram að Þórsliðið er gott og það er engin tilviljun að það skyldi vinna ÍA í fyrstu umferð”

KA – Þór 1-0
1-0 Ásgeir Ásgeirsson (10)

P.s. Til hamingju með daginn! Hér sit ég spariklæddur fyrir framan tölvuna í tilefni af því að HM er komið af stað. Áfram Senegal!